Snertifletir náttúruvísinda og myndlistar

Þverfaglegt námskeið í grunnskóla
 

 
Markmið þessarar starfendarannsóknar var að skoða hvernig ég gæti þróað þverfaglegt námsefni í jarð- og eðlisfræði með aðferðum listrænnar nálgunar.
 
Á sama tíma ígrundaði ég eigin starfshætti og þróaði eigin starfskenningu sem byggði á áhugamálum mínum og reynslu af vettvangi. Í þessum tilgangi voru listasmiðjur settar upp í samvinnu við þróunarverkefnið LÁN. 
 
Megináhersla listasmiðjanna var að vinna með leir og íslensk jarðefni með aðferðum útináms með eldri bekkjum grunnskóla.
 
Jörðin er eitt stórt grjót og við búum á eldfjallaeyju en samt þekkja fæst okkar eðli jarðarinnar í kringum okkur. Lagt var því upp með spurningar á borð við hvort hægt væri að breyta gráum steini sem finnst úti á götu í fallegan glerung. Listasmiðjurnar buðu upp á fjölbreyttar tilraunir þar sem ég beitti nemendamiðuðum nálgunum.
 
Ég vann námsefnið út frá viðmiðum núgildandi Aðalnámskrár grunnskólana með áherslu á þverfaglega nálgun myndlistar og náttúruvísinda. Sá fræðilegi grunnur sem ég leitaði í til að byggja upp smiðjurnar voru meðal annars kenningar Dewey um reynslunám. Ég leitaðist við að setja upp námsaðstæður sem stuðluðu að því að nemendurnir lærðu að skilja betur nærumhverfi skólans og öðluðust aukinn áhuga á náttúrunni. Ég lagði líka áherslu á hugmyndir um menntunargildi fagurfræðilegra upplifana og skynjunar.
 
Ég beitti fjölbreyttum kennsluaðferðum, svo sem útinámi, samvinnunámi og sýnikennslu. Í kennslunni fjallaði ég meðal annars um leirbrennsluna í tengslum við eldgos og vísaði í eðlisfræði og þau efnahvörf sem eiga sér stað þegar leir er brenndur við 1250°C sem er sama hitastig og í eldgosi. Við fórum líka út og fundum fjölbreytt sýni til glerungagerðar og lærðum þannig um jarðfræði.
 
Tilraunir og lágmyndir voru gerðar í leir og notast var við jarðefni og gróður sem nemendur tíndu í vettvangsferð í nágrenni skólanna. Við úrvinnslu nýtti ég mér aðferðafræði NcNiff sem byggir á að ígrunda eigin kennsluhætti og upplifun nemenda á námsefninu.
 
Með því að beita þverfaglegri nálgun náði ég að spegla bakgrunn minn sem keramik hönnuður, áhugamanneskja um jarðfræði og leiðsögumaður inn í kennsluefnið. Í niðurstöðum velti ég einnig fyrir mér hvernig framkvæmdin hefur eflt mig sem fagmann. 
 

 

Hanna Gréta Pálsdóttir
hannagreta [at] hannagretakeramik.com
www.hannagretakeramik.com
Leiðbeinandi: Dr. Ásthildur B. Jónsdóttir
30 ECTS
Listkennsludeild
2021