Sjálfbærni í fatahönnun með áherslu á stafræna hönnun og stafræn handverk

 
Viðfangsefni lokaverkefnis er að rannsaka og miðla möguleikum í nýjum stafrænum leiðum í fatahönnun og fataframleiðslu. Leitað er nýrra möguleika sem styðja við jákvæð umhverfissjónarmið sem geta nýst tískuhönnuðum og nemendum í hönnun til þess að gera vinnuferla þeirra sjálfbærari á tímum aukinna krafna um skilvirkni og sjálfbærni sem styðja við jákvæðari fata- og textíliðnað.
 
Að vera tískuhönnuður í dag finnst mér vera flókið ábyrgðarstarf, þar sem hönnuðir hanna yfirleitt vöru sem á endanum er framleidd. Þá nota hönnuðir þar af leiðandi dýrmæt hráefni frá náttúrunni og skilja eftir sig mismikil vistspor. Að kenna tísku- og/eða fatahönnun finnst mér óhugsandi, nema ég geti kennt nemendum mínum að vinna á sem sjálfbærastan hátt, frá hugmynd að framleiðslu vöru eða þjónustu.
 
Undanfarin ár hef ég markvisst skoðað hvernig ég get sjálf orðið sem sjálfbærust í starfi mínu sem hönnuður. Þetta lokaverkefni, sem er starfendarannsókn, skiptist í fræðilega umfjöllun, sem er að finna í þessari ritgerð, og listræna úrvinnslu, í formi nýrrar tískulínu. Í rannsókninni skoða ég vinnuaðferðir mínar með það í huga hvernig ég get hagnýtt stafræna tækni og þrívíddarforrit við tísku-/fatahönnunarvinnu með því að huga að fjölbreyttum þáttum sjálfbærrar þróunar. Ný tækni hefur komið fram á sjónarsviðið síðastliðin ár og hef ég undanfarnar fjórar annir skoðað möguleika tækninnar í eigin hönnunarvinnu.
 
Til grundvallar rannsókninni liggja tilraunir mínar með þrívíddarhönnunarforritið CLO. Rannsóknin gengur út á að kanna hvernig þrívíddartækni nýtist hönnuðum til nýsköpunar í starfi sínu, hönnunarnemum í verkefnum sínum og til kennslu í fatahönnun/fatatækni. Fjölhæfni forritsins er skoðuð með alla ferla í huga, bæði út frá tæknihliðinni og sköpunarhliðinni. Niðurstöður rannsóknarinnar eru í formi minnar fyrstu fatalínu í stafrænum heimi þar sem ég nota sem flesta þá möguleika sem þrívíddarforritið CLO hefur upp á að bjóða. 
 
bjorg_honnunarmars_2020_landscape.jpg
 

 

 
 
Björg Ingadóttir
bjargar0802 [at] gmail.com
Leiðbeinendur: Dr. Ásthildur B. Jónsdóttir og dr. Ellen Gunnarsdóttir
30 ECTS
2020