„Þú þarft ekki að skilgreina mig, ég skal sýna þér hvernig þú getur skilið mig. Ég tek ábyrgð á því að draga upp þá mynd sem heimurinn mun hafa af mér.“ - Chiara Bersani

Fimmtudaginn 17. nóvember mun sviðslistadeild Listaháskóla Íslands í samstarfi við Reykjavík Dance Festival standa fyrir málstofu með ítölsku sviðslistakonunni Chiara Bersani. Þar mun hin margverðlaunaða Bersani segja frá rannsóknum sínum og aðferðum sem höfundur og flytjandi sem hverfast í kringum “pólitíska líkamann”. Málstofan fer fram í Black Boxinu í Listaháskólanum, Laugarnesvegi 91 og er opin almenningi.

Í vikunni mun Chiara Bersani einnig kenna við Listaháskólann og sýnir verk sitt Gentle Unicorn í tvígang á Reykjavík Dance Festival. Í sýningunni ljær ítalska listakonan þjóðtrúardýrinu einhyrningi líkama sinn. Hreyfingar hennar eru fíngerðar; einhyrningurinn ferðast um rýmið, smágert látbragð hans magnast upp. Chiara holdgerir þessa stórkostlegu veru, einhyrninginn, sem í ljós kemur að er afskaplega mennsk.

Sjá um sýninguna hér: http://www.reykjavikdancefestival.com/gentle-unicorn-2022