Garðar Eyjólfsson, vöruhönnuður og fagstjóri MA Hönnun, heldur erindið Efni, Samhengi, Sögur undir fyrirlestraröð Vettvangs.

Garðar Eyjólfsson hefur á síðustu árum nálgast verkefni sín útfrá efnis og samhengis rannsóknum og notar oft sögur sem miðil til þess að koma innihaldi rannsókna sinna til samfélagsins. Garðar mun fara yfir valin verk og ræða aðferðafræði sína og mikilvægi þess að kanna möguleika hinna ýmsu vettvnga til þess að varpa fram (hönnunar)rannsóknum. 
 
Garðar Eyjólfsson tók B.A (Honours) í Vöruhönnun frá Central Saint Martins, London (2009) og síðan M.A í Samhengisfræðilegri Hönnun (Contextual Studies) frá Design Academy Eindhoven (2011). Garðar hefur sýnt verk sín víðsvegar um heiminn ásamt því að koma mikið fram í tengslum við opinberlega umræðu um hönnun í ræðu og riti, bæði hér heima og erlendis. Þá var Garðar Fagstjóri í Vöruhönnun 2012-2017 við Listaháskóla Íslands og starfar nú sem Fagstjóri M.A Design: Explorations & Translations við sömu stofnun. Að auki rekur Garðar sjálfstætt hönnunarstúdíó í Reykjavík sem skapar og framleiðir allskonar efni, video, hluti, vörur, gjörninga, uppákomur, inngrip, sýningar og concept í samstarfi við allskonar iðnað og stofnanir. 

Fyrirlesturinn verður á ensku.

Vettvangur: Þverfaglegur vettvangur og óræð framtíð er opin fyrirlestraröð í tengslum við samnefnt námskeið þar sem nemendur á öðru ári af öllum brautum hönnunar- og arkitektúrdeildar starfa að þverfaglegum samstarfsverkefnum í Þverholti 11 og á Útskriftarhátíð á Kjarvalsstöðum.

Verkefni nemenda felast í skapandi umbreytingu á menningu og rýmum í eigin nærumhverfi með félagslega, menningarlega og efnislega sjálfbærni að leiðarljósi.

Allir fyrirlestar eru frá kl. 12:15 - 13:00 og verða haldnir í sýningarrými 105, gengið upp á pall inni í mötuneyti skólans.