Sneiðmynd
 

Margvídd

Anna María Bogadóttir
Miðvikudagur 16. nóvember 2022 kl 12:15

 
Nýverið kom út bók Önnu Maríu Jarðsetning og samnefnd kvikmynd er nú til sýninga í Bíó Paradís. Í fyrirlestrinum fjallar Anna María um aðdraganda verkanna og fleiri tengdra verka þar sem hún vinnur með arkitektúr og byggingararf á framsækinn hátt og þvert á miðla. Jarðsetning er margslungið verk þar sem farið er inn í stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu, sem rís á sjöunda áratugnum í anda alþjóðlegra framtíðarhugmynda. Hálfri öld síðar fær byggingin dóm um að víkja. Í verkinu verðum við vitni að niðurrifi bankans með daglegt líf borgarinnar í bakgrunni. Í kvikmyndinni mæta áhorfendur afli vélarinnar og kröftum náttúrunnar og í bókinni fléttast frásögn af lífi og dauða byggingar við sögu borgar, sögu hugmynda og sögu höfundar.
 
Kvikmyndin verður sýnd í Bíó Paradís þriðjudagskvöldið 15. nóvember en hægt er að kaupa miða á vefsíðu Bíó Paradís.
 
Anna María er arkitekt og menningarfræðingur sem leggur áherslu á menningar- og félagslegar hliðar arkitektúr. Hún nálgast arkitektúr frá sjónarhóli hvunndagslífs í samhengi flókinna kerfa og hvata og vinnur með umbreytingu, arf og miðlun sem skapandi afl í arkitektúr. Verk Önnu Maríu og rannsóknir finna sér farveg þvert á miðla á hefðbundnum sem óhefðbundnum vettvöngum.
 
Anna María er stofnandi ÚRBANISTAN sem gegnum ráðgjöf, rannsóknir, sýningagerð og útgáfu kemur að hugmyndafræði og úrlausnum fjölbreyttra verkefna á sviði arkitektúr, skipulags og varðveislu og fela í sér rýmis-, borgar-, strategíu-, samræðu- og sýningahönnun.
 
Anna María lauk meistaragráðu í arkitektúr frá Columbia Háskóla í New York árið 2009. Áður hafði hún starfað við menningar- og sýningastjórn í tæpan áratug og lokið M.A. gráðu í menningarfræði og M.Sc. gráðu í stafrænni hönnun og miðlun frá Upplýsingatækniháskólanum í Kaupmannahöfn.