Gestagangur 2019

Monsters, Anarchists and Indians
Ásmundarsalur 19. febrúar kl. 17:00

Noam Toran er bandarískur myndlistarmaður, fæddur árið 1975 í Las Cruces, Nýju Mexíkó. Hann býr og starfar í Rotterdam, Hollandi og kennir í Sandberg Institute, Amsterdam og HEAD listaháskólanum í Genf. Toran heimsækir Listaháskóla Íslands nú í febrúar og kennir nemendum í Meistaranámi í hönnun ásamt því að halda fyrirlestur í Ásmundarsal 19. febrúar næst komandi klukkan 17:00. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Verk Torans ganga út frá sköpun margbrotinna frásagna sem eru sagðar með það að markmiði að raska ríkjandi hefðum sagnfræðinnar. Verkin byggja á sögum sem hefur verið ýtt til hliðar eða verið afneitað í sagnfræðilegu samhengi. Í verkum sínum enduspeglar Toran tengsl minninga, gleymsku, goðafræði og auðkennis. Með því skoðar hann frumkraftinn sem býr í frásögnum og hvernig þær birtast í arkívum, kvikmyndum, bókmenntum og gjörningum. Verk Torans raungerast með frásögnum í formi innsetninga, menntunarmódela, kvikmynda, gjörninga og handrita.

Í fyrirlestri sínum mun Noam Toran kynna nýjustu verk sín og fjalla um ferli þeirra, allt frá hugmynd að veruleika. Þar mun hann einblína á þá vinnu sem fer fram bak við tjöldin, svo sem aðferðir, framleiðsluferli og tæknilegar hliðar sköpunarferlisins.

Á meðan dvölinni stendur mun Toran halda námskeið fyrir nemendur í meistaranámi í hönnun sem ber titilinn „The Post-Apocalyptic Society of Iceland.“ Námskeiðið snýst um að skoða nálgun okkar á listasöfn og það hvernig við bregðumst við aðstæðum og umhverfi safnanna. Toran spyr, hvaða tækifæri bjóðast okkur – pólitísk, heimspekileg og fagurfræðileg – ef við veljum meðvitað að mistúlka eða misskilja það efni sem lagt er fyrir okkur? Ef við strípum safnið af öllum beinhörðum menningarlegum, sögulegum, jarðfræðilegum eða stjórnmálalegum römmum og skoðum efni þess út frá skáldsögulegri – eða vísindaskáldsögulegri fagurfræði –  hvað uppgötvum við þá í efninu sem við myndum ekki uppgötva ef við skoðuðum það eins og okkur hefur verið kennt? Hvað gæti slík nálgun uppljóstrað um þá tegund þekkingar sem söfn leggja upp með og um þau samfélög sem söfnin lýsa?

Heimasíða Noam Toran er http://www.noamtoran.com/NT2009/