Næsti gestur á opnum fyrirlestri í myndlistardeild er Finnbogi Pétursson myndlistarmaður. Í verkum sínum brúar Finnbogi bil milli náttúru og vísinda með því að skoða eðli ljóss, hljóðs og orku í innsetningum þar sem eitt efni er notað til að kanna eiginleika annars efnis.

Hann vinnur með hegðun hljóðs og leitar í lögmál eðlisfræðinnar að innblæstri. Finnbogi laðast að því sem hann kallar „inn á milli“ en það vísar til ferðalags hljóðbylgja á milli, til dæmis magnara og hljóðfæris, hvernig hægt er að stjórna þeim og hafa áhrif á þær. Tilraunir Finnboga leiða oft til stórra innsetninga þar sem ólíkir efnisþættir koma saman í fullkomnum samhljómi og einn þáttur afhjúpar grundvallareiginleika hins. Ef lýsa ætti verkum Finnboga í stuttu máli einkennast þau af getu hans til að gera hið óáþreifanlega sýnilegt.

Finnbogi Pétursson fæddist í Reykjavík árið 1959. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Jan van Eyck Akademie í Hollandi á árunum 1979 til 1985. Finnbogi vakti snemma athygli fyrir innsetningar sínar á Íslandi en verk hans hafa á undanförnum áratugum vakið áhuga langt út fyrir landsteinana og þau verið sýnd víða erlendis, í þekktum galleríum og söfnum. Í byrjun febrúar var opnuð samsýningin aBIOTIC í New Media Gallery í Vancouver í Kanada með verki Finnboga Infra/Supra (2016/2022). Sumarið 2022 sýndi hann innsetninguna FLÓI í Hildebrandtshúsinu á Blönduósi á vegum Kleifa sem var tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2023. Finnbogi Pétursson hlaut Gerðarverðlaunin 2022 fyrir framlag sitt til skúlptúrlistar á Íslandi.