Nemendur á öðru ári í fatahönnun við Listaháskóla Íslands fóru í byrjun janúar til Getaria fæðingarbæjar fatahönnuðarins Cristóbal Balenciaga. Ferðin var hluti af námskeiði sem er unnið í tengslum við keppni sem Balenciaga safnið á Spáni stendur fyrir. Fleiri alþjóðlegir listaháskólar taka þátt í keppninni, má þar nefna Aalto University í Helsinki, Central Saint Martins í London, KADK Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn, Shenkar College of Engineering í Ísrael, Sheika Kyoto Háskólinn í Kyoto og Parson School of Design í New York. Einn til tveir nemendur úr hverjum skóla fá tækifæri til að sýna á sýningu í safninu að henni lokinni og er því til mikils að vinna. Námsbraut í fatahönnun við Listaháskólann tók þátt í keppninni árið 2018 og tveir nemendur héðan sýndu á safninu í kjölfarið. 
 
Katrín María Káradóttir leiðir samstarfið fyrir hönd Listahaskólans en Elva María Káradóttur, stundakennari við LHÍ, tók á móti hópnum á Spáni og hafði yfirumsjón með námskeiðinu sem þar fór fram.
 
Nemendurnir voru teknir á tal fljótlega eftir heimkomuna og voru að eigin sögn mjög ánægð og spennt fyrir verkefninu. Ferðin gekk vel fyrir sig, þó bekkurinn hafi lent í örlitlum hrakningum í upphafi:
 
Við misstum af tengifluginu okkar frá Barcelona til Bilbao. Við vorum veðurteppt í þrjá tíma í Keflavík og rétt misstum við af vélinni í Barcelona, það munaði bara tveimur mínútum á að við hefðum náð þessu. Þannig að við settumst öll saman á Burger King, ræddum málin og  ákváðum að leigja okkur bíl og keyra í sex tíma til Bilbao um miðja nótt, í raun þvert yfir landið. Síðan tókum við leigubíl þaðan til Getaria. Það var ótrúlegt hvað þetta gekk vel og mikil heppni að við skildum ná að vera komin til Getaria snemma morguninn eftir.
 
Hvað tók þá við, eftir keyrsluna?
Við gátum lagt okkur aðeins, í svona tvo klukkutíma, þá mættum við á safnið. Það eru átta upprunalegar Balenciaga flíkur úr safninu sem eru teknar fyrir í keppninni og allir eiga að velja sér eina flík og endurgera hana. Þetta er partur af ferlinu, eiginlega upphafið þar sem maður endurgerir flík eftir Balenciaga og fær smá tilfinningu fyrir stílnum og aðferðunum sem hann notaði. Javier, sem tók á móti okkur á safninu, sýndi okkur léreft sem hann hafði gert eftir upprunalegu Balenciaga flíkunum og hann sýndi okkur öll brögðin sem Balenciaga hafði beitt við sína hönnun.
Svo fengum við að sjá upprunalegu flíkurnar sem eru margar 70 ára gamlar. En við máttum ekkert koma við þetta, Javier var sjálfur í hvítum hönskum og gat bara rétt lyft þeim upp, við máttum í raun ekkert vera að skoða þetta mikið. Hann hafði sjálfur stúderað flíkurnar og endurgerði þær eftir bestu getu, það leit mjög vel út og var vel gert hjá honum. 
 
Hvað voruð þið lengi á Getaria og voru fleiri hópar þar líka?
Við vorum þarna í þrjá daga, fyrst í einn dag að skoða safnið sjálft og svo tvo daga á námskeiði hjá Elvu Maríu Káradóttur. Skólarnir, sem taka þátt, koma sko einn í einu á safnið, þannig að sumir eru nú þegar búnir með allt ferlið og aðrir eru komnir styttra en við. Það eru mjög strangar reglur um hvað maður má sýna mikið og segja mikið frá þessu. Við máttum til dæmis ekki setja neitt á Instagram frá okkar flíkum og megum ekki gera það fyrr en eftir að keppninni lýkur. Við megum heldur ekki nota þetta í ferilmöppu fyrr en eftir keppnina þannig að þetta er mjög strangt svo enginn fari að svindla eða herma eftir öðrum. Eftir dvölina í Getaria fóru stór hluti af hópnum til London til að kaupa sér efni fyrir sína hönnun í keppninni.
 
Hvernig er að vera í svona keppni saman?
Af okkur átta sem eru í bekknum, eru bara fimm sem fá að taka þátt í sjálfri keppninni úti. Það er íslensk dómnefnd, sem þekkir okkur ekki, sem ákveður hverjir það eru. Flíkurnar fimm sem verða fyrir valinu eru þá sendar út til safnsins og af þeim eru 1 – 2 valdnar til að vera á sýningunni sem verður haldin á næsta ári og vinna þannig keppnina fyrir hönd skólans. Þá fara þeir nemendur sem eiga flíkurnar út til að vera viðstaddir sýninguna. Það er mikill heiður að taka þátt í þessu, ekki síst því það eru svo flottir erlendir listaháskólar sem taka þátt í verkefninu. Þetta kemur sér líka vel fyrir ferilskrá og getur veitt manni alveg ný tækifæri.
            Samt er smá stressandi að vera svona í keppni við hvert annað, það eru náttúrulega þrír sem detta út strax. Svo er fyrsta árið í fatahönnun hér við Listaháskólann líka að fara að taka þátt í sömu keppni á næsta ári og þá bætist enn meira við samkeppnina.
En við erum þéttur hópur og peppum hvert annað því við gerum svo ólíka hluti. Þetta snýst bara um að vera sjálfstæður í sinni hönnun. Þeir sem komast áfram komast áfram. Svo snýst þetta líka um það hvaða hönnun passar inn í fagurfræði Balenciaga og hvað passar bara ekki við það. Við erum hvött til að hanna frekar eitthvað sem við erum stolt af og viljum hafa í möppunum okkar heldur en að hanna samkvæmt einhverjum reglum með það eitt að markmiði að vinna. Það er alltaf ávinningur af þessu, hvort sem maður vinnur keppnina eða ekki.
 
Hvað er framhaldið?
Katrín María sem sér um verkefnið hefur talað um að óháð því hver eða hverjir fara út á sýninguna, muni bekkurinn halda litla sýningu hérna heima á flíkunum. Það er líka góð hvatning. Svo dreymir okkur um að fara í útskriftarferð saman til Getaria og fagna með þeim sem verða fyrir valinu í keppninni. En við sjáum til hvernig það fer.
 
 
Þetta er samheldinn bekkur og það verður gaman að fylgjast með þeim í þessu verkefni.
 

(myndir frá nemendum)