Nemendur á þriðja ári Alþjóðlegrar Samtímadansbrautar æfa nú fyrir útskriftarsýningu sína sem frumsýnd verður þann 13. maí í sviðslistarými (Black Box) Listaháskólans í Laugarnesi.
 
Um er að ræða tvö ný dansverk, unnin sérstaklega fyrir hópinn.
Annað verkið vinnur danshöfundurinn Anna Kolfinna Kuran í samstarfi við hópinn, sviðs- og búningahönnuðinn Guðnýju Hrund Sigurðardóttur og Idu Nielsen Juhl, nemanda í nýmiðlatónsmíðum.
Anna Kolfinna vinnur með systralag og frumkraft þessara átta ólíku kvendansara í útskriftarhópnum:
 
,,Krafturinn í þeim endurspeglast í kraftinum í náttúrunni með öllum hennar uppsprettum, átökum, þrautseigju og hringrás. Eins og galdur hrindir krafturinn þeim af stað í ferðalag um sviðið þar sem þær mynda ólík landslög úr líkömum sínum. Saman eru þær sterkar, í sundur eru þær einstakar."
 
Danshöfundarnir Ásgeir Helgi Magnússon og Cameron Corbett taka hins vegar fyrir eitt af kanón-verkum listdanssögunnar, Svanavatnið, í sinni uppsetningu með hópnum. Með dönsurunum afbyggja þeir þetta klassíska ballettminni og spyrja:
 
,,Hverjir eru þessir svanir? Hverjar eru þessar konur á sviðinu? Og hvað er að frétta í þessari tjörn?"
 
Útskriftarnemendur:
Amanda Líf Fritzdóttir
Anna Guðrún Tómasdóttir
Bjartey Elín Hauksdóttir
Júlía Hrafnsdóttir
Júlía Kolbrún Sigurðardóttir
Karitas Lotta Tulinius
Mathilde Mensink
Sanna Josefiina Hirvonen