Gestur okkar í Þolmörkum að þessu sinni er Bergur Ebbi. Erindið fer fram í fyrirlestrarsal A, Þverholti 11 föstudaginn 7. febrúar klukkan 12:15 og verður á íslensku
Allir hjartanlega velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

Staðal jaðar
Í erindi sínu fjallar Bergur Ebbi um þolmörk í margvíslegum skilningi en einkum með tilliti til hagsmuna. Hvaða hagsmunaöfl ráða för í verkum listamanna og framsetningu hugmynda? Hvað þarf að gera til að ganga fram af okkur og skiptir máli að samfélagsgerðin er nú þannig að sérhver frammistaða fær einkunn, umsögn og flokkun?
-
Bergur Ebbi er rithöfundur, ljóðskáld og ritgerðarsmiður, með fjölþættan bakgrunn úr heimi lista, akademíu og viðskipta. Meðal umfjöllunarefna í verkum Bergs Ebba er tæknisaga og áhrif hennar á sjálfsmynd fólks, stjórnmál, valdajafnvægi, breytt heimsmynd, tíska og tíðarandi. Bergur Ebbi er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og með MDes gráðu í Strategic Foresight and Innovation frá OCAD Háskólanum í Toronto í Kanada auk þess að leggja stund á lögfræði og listasögu við Université de Cergy Pontoise í París. Meðal verka Bergs Ebba eru bækurnar Stofuhiti (2017) og Skjáskot (2019).

ÞOLMÖRK
Skólaárið 2019-2020 fer af stað ný fyrirlestrarröð þar sem allar fimm deildir Listaháskóla Íslands og nemendaráð vinna saman. Fyrirlestrarröðin, sem gengur undir nafninu Þolmörk, er tilraun til að opna á samlegðaráhrif milli ólíkra listgreina og skapa þannig þverfaglegan umræðuvettvang fyrir nemendur, starfsfólk háskólans og aðra áhugasama.

Dagskrá Þolmarka vor 2020*:

Föstudagur 7. febrúar
Kl. 12:15 – 13:00
Bergur Ebbi

Föstudagur 13. mars
Kl. 12:15 – 13:00
Þóranna Dögg Björnsdóttir

Föstudagur 17. Apríl
Kl. 12:15 – 13:00
Nick Candy – Sirkus á Íslandi

*Dagskrá er birt með fyrirvara um breytingar.