Tónlist fyrir mannsrödd, píanó og áheyrendur

Berglind María Tómasdóttir

Þann 2. febrúar 2019 var verkið Tónlist fyrir mannsrödd, píanó og áheyrendur eftir undirritaða flutt á tónleikum í Hafnarhúsinu. Tónleikarnir voru hluti af tónlistarhátíðinni Myrkir músíkdagar. Flytjendur voru Lilja María Ásmundsdóttir, undirrituð og viðstaddir.

Hér gefur að líta upptöku af verkinu frá viðburðinum.

Myndband 1: Flutningur verksins Tónlist fyrir mannsrödd, píanó og áheyrendur á Myrkum Músíkdögum 2019

 

Eftirfarandi er greining á verkinu og og því samhengi sem það sprettur upp úr.

Verkið samanstendur af eftirfarandi þáttum:

  • Rödd sem hljómar í hljóðkerfi.
  • Píanista sem jafnframt birtist í myndbandi af og til í verkinu og leiðir fjöldasöng undir lok verks.
  • Áheyrendum sem taka virkan þátt í tveimur liðum verksins; annars vegar henda þeir borðtenniskúlum í opinn flygilinn og hins vegar taka þeir þátt í ofangreindum fjöldasöng.
Samhengi

Tónlist fyrir mannrödd, píanó og áheyrendur er öðrum þræði hugleiðing um hlutverk og verkaskiptingu innan hefðbundinnar sígildrar- og samtímatónlistar. Hefðbundin samtímatónlist er í þessu samhengi sú tónlist sem er kirfilega skrásett í skor og gefur nákvæma hugmynd um útkomu verksins. Vald flytjanda yfir hljóðrænni útkomu verksins er mjög afmarkað innan hljóðheims hljóðgjafans sem skorið kveður á um að skuli nota. Hlutverk flytjandans í samhengi hefðbundinnar samtímatónlistar er fyrst og fremst hlutverk túlkandans sem fylgir skori tónskáldsins. Þessa hlutverkaskipan má rekja til rómantískra hugmynda um upphafningu tónskáldsins sem snillings sem setur verk sín fram á formi skors sem inniheldur allar þær upplýsingar sem flytjandinn þarf til að koma skilaboðum áleiðis til áheyrenda; þ.e.a.s. þeirra sem ekki eru læsir á skor þar sem, samkvæmt þessari skilgreiningu, tæra útgáfu verksins er að finna. Bandaríski slagverksleikarinn Jennifer Torrence veltir fyrir sér hlutverki flytjandans í samtímatónlist í grein sinni Rethinking the Performer: Towards a Devising Performance Practice. Þar skoðar hún ólíkar gerðir verklaga sem þrífast meðal flytjenda og tónskálda í samtímatónlist. Hún setur verklagið upp á róf þar sem flytjandinn er ýmist túlkandi (e. interpreter), ráðgefandi (e. adviser) eða skapandi (e. deviser).[1] Áheyrendur í hefðbundnum skilningi eru sá hópur sem er viðstaddur tónlistarflutning án þess að taka beinan þátt í flutningi tónlistarinnar.

Verk mitt ávarpar þessi hlutverk og framandgerir með skírskotun í hugmyndir Christopher Small settar fram í bókinni Musicking; að tónlist sé fyrst og fremst iðkun sem allir viðstaddir eiga hlutdeild í.[2]  Verkið fylgir engu að síður skýrri hlutverkaskipan; tónskáldið — í þessu tilfelli mannsröddin —  hefur fullt vald á framvindu verksins, flytjandinn er með afmarkað hlutverk sem túlkandi og áheyrendur eru viðstaddir án beinnar þátttöku, þar til tónskáldið gefur fyrirmæli um þátttöku þeirra. Reyndar eru áheyrendur strax ávarpaðir af mannsröddinni sem þannig framandgerir aðstæðurnar með því að útskýra hvað fer fram.[3] Í þessu samhengi er líka augljóst að nefna verk John Cage 4’33” sem beinlínis ávarpar þátttöku eða viðveru allra viðstaddra með þögn sinni.

Forvinna

Þegar ég byrjaði að undirbúa verkið kom þetta einkum upp í hugann:

Ég vildi á einhvern hátt draga athyglina að flytjandanum, Lilju og hennar sérkennum; til að mynda er söngrödd Lilju einkar fögur og vildi ég að hún kæmi við sögu í verkinu. Þannig vildi ég ítreka stöðu flytjandans sem miðpunkts í verkinu og meðhöfund tónefnis. Stór hluti verksins eru myndbönd sem sýna nærmynd af flytjandanum en þennan þátt þarf að endurgera fyrir hvern og einn flutning verksins. Fordæmi fyrir slíku eru alþekkt, má nefna verk Simon Steen-Andersen sem dæmi en verkið Study for String Instruments byggir á samspili sérgerðra myndupptöku af flytjanda sem blandast við lifandi flutning hverju sinni.[4] Loks var ég með hugmyndir um verk sem innihéldi hæfilegt magn af gáska, myndi reiða sig á virkni áheyrenda og þannig minna frekar á samkvæmisleik en tónverk. Þetta eru fyrirbrigði sem eiga sér langa sögu innan samtímatónlistar og má rekja til tilraunamennsku í tónlist um miðbik síðustu aldar. Birtingarmyndir þessara efnisþátta komu fram í köflum þar sem áheyrendum var boðið að kasta borðtenniskúlu í innviði flygilsins sem og í lok verksins þegar áheyrendur tóku þátt í fjöldasöng.

Greining

Verkið er sett fram á formi handrits þar sem röð atburða er skýrt afmörkuð. Hér á eftir er nánari útlistun á hverjum innihaldsþætti fyrir sig.

1. Mannsröddin

Verkið hefst og lýkur á rödd höfundar sem rammar inn verkið. Röddin hefur þríþættan tilgang: 1. Að útskýra og ramma inn framvindu verks. 2. Að eiga í beinu samtali við áheyrendur án aðkomu flytjandans. 3. Að framandgera verkið.

Röddin hefur á sér blæ talgervils á borð við hina bandaríska Samönthu.[5] Slík rödd sem er í senn perónuleg, því þú getur vissulega átt í samskiptum við röddina, og ópersónuleg því þú veist að ekki er um raunverulega persónu að ræða heldur rödd sem stjórnað er með aðstoð gervigreindar. Röddin í verkinu á í samtali við áheyrendur en þó er ekki um raunverulegt samtal að ræða þar eð röddin er hljóðrituð fyrirfram. Engu að síður gefur hið svokallaða samtal tilfinningu fyrir því að um samtal sé að ræða þar sem hljóðritaða röddin spyr spurninga og þykist hlusta eftir svari. Þarna er verið að spila með tilfinninguna sem myndast þegar tölvustýrðar raddir eiga í samtali við manneskjur af holdi og blóði þar sem ankannalegur misskilningur á sér iðulega stað, einkum þegar upp kemur misskilningur vegna framburðar. Upptaka raddarinnar er sá rammi sem breytist ekki við endurtekinn flutning verksins, handritið er ávallt eins, en röddina mætti vissulega hljóðrita á ný af öðrum aðila.

2. Píanistinn/flytjandinn

Efni píanistans er þrenns konar:

  1. Efni þar sem leikið er á innviði flygils undir hljóðrás sem einnig inniheldur hljóð sem sótt eru í innviði flygils. Píanóverkið í verkinu, sem er um þrjár og hálf mínúta, var unnið í samstarfi við Lilju sem spann á innviði flygils í vinnustofum í aðdraganda frumflutningsins sem varð aftur að uppistöðu í verkinu, bæði hljóðrás og lifandi hluta verksins. Spuni Lilju fólst fyrst og fremst í strokum með skopparabolta á strengi hljóðfærisins sem og léttum köstum með borðtenniskúlu  á innviðina.
  2. Píanistinn situr við flygilinn og heldur pedal niðri þegar áheyrendur kasta borðtenniskúlum í innviði flygilsins. Þannig myndast endurómun þegar borðtenniskúlurnar skoppa á strengjum flygilsins, mismikill eftir eðli hvers kasts.
  3. Píanistinn syngur laglínu í myndbandsupptöku sem umbreytist í fjöldasöng undir lok verks. Jafnframt leikur píanistinn undir söngnum. Hljómagangurinn er afar einfaldur og varð til í vinnustofum með Lilju Maríu.

Ef við lítum aftur til greinar Jennifer Torrence um ólíkar gerðir verklaga milli tónskálda og flytjenda er augljóst að verklagið sem hér var stuðst við byggði á samsköpun, þar sem flytjandi var skapandi (e. deviser) við hlið tónskálds. Lilja lagði til útfærslur á öllu tónefni sem voru byggðar  á hugmyndum mínum er prófaðar voru í vinnustofum.

3. Áheyrendur

Áheyrendur eru ávarpaðir strax í upphafi verks, af mannsröddinni — tónskáldinu — sem talar við þá í gegnum allt verkið, ýmist til að gefa fyrirmæli eða til að efla meðvitund þeirra um atburðarás verksins. Í því samhengi má segja að flytjandinn sé algjörlega sniðgenginn því röddin ávarpar aldrei Lilju nema í þriðju persónu til að undirstrika takmarkað hlutverk flytjandans sem túlkanda. Á tveimur stöðum í verkinu taka áheyrendur beinan þátt í verkinu, fyrst sem einstaklingar þar sem þeir sem finna borðtenniskúlu undir sæti sínu er boðið að stíga á svið og henda henni varfærnislega í innviði flygilsins. Nærvera þeirra á sviðinu undirstrikar beina þátttöku þeirra í verkinu og skírskotar þannig til hugmynda um hlutverk og verkaskiptingu innan hefðbundinnar sígildrar og samtímatónlistar. Röddin býður þeim að því loknu að ganga til sætis á ný. Fjöldasöngurinn undir lok verksins er lag sem er nægilega einfalt til að hægt sé að syngja með eftir eina hlustun. Þegar píanistinn leikur undir söngnum halda borðtenniskúlurnar áfram að skoppa ofan á strengjunum og minna þannig á áhrif áheyrenda á hljómrænar niðurstöður verksins.

Að lokum

Verkið Tónlist fyrir mannsrödd, píanó og áheyrendur er tilraun til að varpa ljósi á þá hlutverkaskipan sem lifir enn góðu lífi innan samtímatónlistar þar sem hlutverk flytjandans er afmarkað við túlkun út frá fyrirmælum skorsins. Með því að framandgera hefðbundnar tónleikaaðstæður, samskapa tónlistina í verkinu í félagi við flytjandann og krefjast beinnar þátttöku áheyrenda er þessi hlutverkaskipan ávörpuð og afbyggð. Á sama tíma er sjónum beint að valdeflingu flytjandans sem skapandi afls við tilurð og flutning nýrrar tónlistar, sem og áheyrendum sem áhrifavöldum á framvindu verksins. Höfundurinn dó jú fyrir mörgum áratugum síðan.[6]

---


[1] Sjá nánar: Torrence, J. Rethinking the Performer: Towards a Devising Performance Practice. https://www.researchcatalogue.net/view/391025/391476#418356

Sótt 21. mars 2019

[2] Small, Christopher, Musicking, (Middletown, Connecticut, Wesleyan University Press, 1998)

[3] Hér er átt við það listbragð úr leikhúsi ættað frá þýska höfundinum Berthold Brecht sem felst í að gera vanabundin fyrirbæri framandleg til að áhorfendur sjái veruleika sinn í nýju ljósi (þ.Verfremdungseffekt).

[4] Sjá til dæmis þennan flutning bandaríska sellóleikarans Jennifer Bewerse á verkinu Study For String Instrument #3: https://www.youtube.com/watch?v=MwKCiS-VjNo en skorið má nálgast hér:

http://www.edition-s.dk/music/simon-steen-andersen/study-for-string-instrument-3

Sótt 21. mars 2019

[5] Samantha er stafrænn hjálparkokkur tölvu- og snalltækjaframleiðandans Apple, ein af fjölmörgum mannsröddum sem hægt er að velja í snjalltækjum frá framleiðandanum vilji maður á annað borð að tækin tali við sig. Ekki er enn til íslensk útgáfa slíkrar raddar og er það bagalegt.

[6] Hér er vísað til greinar Roland Barthes, „The Death of the Author“ frá 1967 sem t.d. má nálgast hér: http://www.ubu.com/aspen/aspen5and6/threeEssays.html#barthes

Sótt 29. mars 2019

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Tölublað 1

Tölublað 2

Tölublað 3

Tölublað 4

Til höfunda

Tölublað 4

Um höfunda