Formáli

Nú þegar við fylgjum fjórða tölublaði Þráða úr hlaði er vert að líta um öxl og skoða farinn veg. Tilgangurinn með stofnun tímaritsins árið 2016 var að hvetja og styðja starfsmenn tónlistardeildar LHÍ við miðlun rannsókna og verkefna á opinberum vettvangi og framfylgja með því rannsóknarstefnu deildarinnar. Tónlistardeild ber ábyrgð á þróun rannsókna á sviði tónlistar innan íslensks háskólasamfélags enda höfum við þá trú að allt starf deildarinnar styrkist með öflugri rannsóknarmenningu og er tímaritið einn liður í því.  

Strax frá upphafi fannst okkur í ritstjórn Þráða mikilvægt að leggja áherslu á opinn vettvang og mikinn sveigjanleika hvað varðar tegundir texta og innsent efni til þess að sem flestir gætu fundið sig í miðlinum. Mikil fjölbreytni hefur einkennt þær greinar sem birst hafa til þessa, hvað varðar tegundir texta, nálgun, aðferðafræði og tónlistartegundir. Með því að gefa tímaritið út rafrænt er hægt að nýta sér hið stafræna umhverfi netsins og tengja hljóð-, vídeó- og myndefni beint við greinarnar. Þræðir er jafnframt vettvangur til þess að þróa og þroska íslenskt tungutak um tónlist og því höfum við lagt áherslu á skrif á íslensku. 

Við erum stolt af því hversu margir hafa sent inn greinar. Auk fastráðinna starfsmanna deildarinnar hafa stundakennarar og hollnemar tekið þátt í þessu verkefni með okkur. Þá hafa einnig borist greinar frá fólki sem standa fyrir utan deildina og erum við ánægð með hversu víða Þræðir liggja.  

Í þessu fjórða tölublaði eru tólf greinar. Hvort tveggja er um að ræða höfunda sem hafa birt efni reglulega í Þráðum sem og höfunda sem eru að skrifa sína fyrstu grein fyrir tímaritið, þar á meðal eru hollnemar, stundakennarar og fastráðnir kennarar. Má draga þá ályktun að þörfin og áhuginn á þessum vettvangi hafi síður en svo dvínað með árunum og hefur nú tímaritið fest sig í sessi sem hluti af tónlistarlífi þjóðarinnar.  

Ég vil þakka öllum þeim höfundum sem lögðu til efni í þetta tölublað og einnig Atla Ingólfssyni og Einari Torfa Einarssyni fyrir gott samstarf á meðan á ritstjórnarferlinu stóð. Þá fær Elísabet Indra Ragnarsdóttir jafnframt okkar bestu þakkir fyrir uppsetningu tölublaðsins á vefnum. 

Fyrir hönd ritstjórnar, 

Þorbjörg Daphne Hall