Úlfar Ingi mun nýta starfslaunin til að vinna að konsertverki ásamt nokkrum smærri verkum. Um þessar mundir er eitt nýtt verk fyrir sólóhljóðfæri með rafhljóðum á efnisskrá Myrkra Músíkdaga en það er verk sem hann mun flytja sjálfur á tónleikum 31.jan. Einnig er á leiðinni geisladiskur með verkum Úlfars í flutningi íslenskra og erlendra flytjenda.

Úlfar Ingi Haraldsson (1966) byrjaði að fást við tónlist um 1979 og stundaði nám á 9. áratugnum við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík.  Árið 1992 hóf hann nám og starfaði síðar við University of California í San Diego þaðan sem hann lauk doktorsprófi í tónsmíðum og tónfræðum árið 2000. Hann hefur á undanförnum árum starfað sem tónskáld, bassaleikari og stjórnandi ásamt því að sinna ýmiskonar fjölbreyttri kennslu á tónlistarsviðinu. Skráð tónverk, stór og smá, eru u.þ.b. 60 sem hafa verið víða flutt, bæði í tengslum við ýmsar tónlistarhátíðir og á tónleikum fjölda listamanna og hljómsveita á Íslandi og erlendis.  

Úlfar Ingi um stuðning við listsköpun:

„Stuðningur til listsköpunar á fjölbreyttum grunni er gríðarlega
mikilvægur fyrir þróað og heilbrigt samfélag að mínu mati. Skapandi list
og starf veitir ákveðinni tegund af næringu út í samfélagið sem oft er
slungið að mæla og rannsaka. Slík næring gegnumsmígur allt og stuðlar að
grósku á öllum sviðum mannlífsins þar sem svo margir aðrir en listamenn
sjálfir njóta ágóðans. Gríðarlega mikið af lífi listafólks fer blátt
áfram í að vinna að listrænum hugsjónum og verkum án nokkurs stuðnings
og því er ég ávallt mjög þakklátur og finnst það mikill heiður þegar
slíkur stuðningur berst.“    

„Gott samstarf við erlenda listamenn og hópa hefur leitt af sér ýmiskonar áhugaverð verkefni og á liðnum árum t.d. stuðlað  beint og óbeint að Íslandsheimsókn kóra frá Ítalíu, Noregi og USA ásamt heimsóknum einstaklinga og smærri hópa.“