11 nemendur á fyrsta ári í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands fengu það skemmtilega en krefjandi verkefni að endurhanna leikvöll á Drangsnesi. Það gerðu þau undir handleiðslu Rúnu Thors, vöruhönnuðar og stundakennara við Listaháskólann.

„Krakkarnir í grunnskólanum á Drangsnesi voru víst orðnir heldur þreyttir á gömlu leiktækjunum á svæðinu, enda höfðu þau átt sitt blómaskeið og vel rúmlega það. Þau kynntu mál sitt fyrir skólayfirvöldum sem leiddi að því að Finnur Ólafsson, Oddviti Kaldrananeshrepps, hafði samband við Listaháskólann með hugmynd um vinnusmiðju sem myndi leiða til nýs leiksvæðis,“ segja Steinn Einar Jónsson og Hlynur Helgi Hallgrímsson sem urðu fyrir svörum fyrir hönd hópsins.

Hópurinn endurhannaði og -byggði leiksvæðið og notaði til þess efnivið sem þau fengu og fundu á staðnum. „Það var lítið fjármagn í boði sem við litum þó aldrei í raun og veru á sem vankost, enda kemur það fyrir oftar en ekki í náminu að við séum að reyna að skapa verðmæti úr litlu sem engu eða finna þau á óþekktum stöðum. Í þetta skiptið ákváðum við að leita í fjöruna og vinna með sjávarþemað, sem við töldum hæfa aðstæðum. Það er nauðsynlegt að virða umhverfið sem að maður vinnur í hverju sinni.“

Sumt var algjörlega skapað af nemendum á meðan annað var gert upp. „Stýrishúsið varð eiginlegt hjarta leikvallarins, en við unnum mikið út frá því. Finnur hafði komið með rekavið fyrir okkur sem hann hafði týnt saman með aðstoð annarra bæjarbúa en við sáum fljótt að við þyrftum meira og fórum þá í nokkrar fjöruferðir sjálf og fundum þar ýmislegt nothæft. Það eru tveir mjög góðir tónlistarmenn og hljóðnördar í bekknum sem smíðuðu hljóðfæri úr bobbing sem við drógum úr fjörunni sem var alveg stórskemmtilegt. Við gerðum svo útikennslusvæði fyrir framan skólann, samverusvæði og eldstæði, sandkassa og klifurgrindina við stýrishúsið, allt úr rekavið. Rólurnar voru í raun það eina sem fengu að standa áfram, en það var samt mikil vinna að gera þær upp. Svo bjuggum við til og hengdum upp körfuboltaspjald ásamt því að hanna lítið japanskt drullubeð og læk þar sem ennþá rann vatn úr fjallshlíðinni í kjölfar leysinga.“

Allt var þetta gert á undir viku. „Helmingur hópsins fór í svokallaða undanfaraferð tveimur vikum fyrir verkefnið til að skoða aðstæður með eigin augum, taka myndir og mæla upp ýmislegt. Síðan mættum við allur hópurinn á sunnudagskvöldi og unnum eiginlega stanslaust fram á föstudag, með smá pottapásum og einum varðeldi. Við bjuggum á gistiheimilinu Malarhorni og skiptumst á að elda fyrir hópinn. Ég held að við höfum náð ansi góðri nýtingu á samanlögðum styrkleika hópsins því allir nutu sín og lögðu allt sitt fram. Nú erum við öll bestu vinir, orðin rosa samheldin og reiðubúin að bjarga heiminum.“

Nemendur eru þakklátir Drangsnessbúum fyrir þetta einstaka tækifæri og alla hjálpina. „Það kom ótrúlega skemmtilega á óvart hvað allir voru boðnir og búnir til að aðstoða okkur. Upp úr fjársjóðskistum bæjarbúa var dreginn gamall björgunarhringur, forláta harðviðarstýri og hinir ýmsu hlutir sem gerðu okkur kleift að setja punktinn yfir i-ið í hönnun leikvallarins. Það gefur svo sannarlega aukinn kraft að finna fyrir þessu fólki standa við bakið á okkur. Það fór eitthvað af stað í bænum og ég held að okkur standi meira að segja öllum til boða vinna í frystihúsinu hvenær sem við viljum. Svo fengum við handskrifað bréf frá krökkunum í skólanum sem er komið upp á vegg inni í skólastofu hjá okkur. Þetta var algjör draumur.“

Hér má svo lesa umfjöllun RÚV um verkefnið