Laugardaginn 27. febrúar kl. 14 mun Magnús Lyngdal Magnússon halda erindi á vegum Richard Wagner félagsins um óperuna Parsifal í Norræna húsinu.

Magnús mun fjalla um óperuna út frá hljóðritunarsögu hennar og velta upp spurningum um hvort túlkun verksins hafi breyst frá því að hún var frumflutt árið 1882. Fyrirlesturinn er opinn öllum áhugasömum og aðgangur ókeypis.

Um fyrirlesarann:
Magnús Lyngdal Magnússon lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1996 og meistaraprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2002. Hann var áður aðstoðarforstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar Ísland (Rannís) en starfar nú sem aðstoðarmaður rektors Háskóla Íslands. Magnús er mikill kunnáttumaður um tónlist og hefur haldið fjölda fræðsluerinda ásamt greinaskrifum fyrir m.a. Wagnerfélagið, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku óperuna.

Wagnerfélagið á Íslandi hefur starfað frá árinu 1995. Formaður þess frá upphafi er Selma Guðmundsdóttir píanóleikari og aðjúnkt við tónlistardeild LHÍ.