Jóhannes Dagsson hefur verið ráðinn lektor í fræðigreinum við myndlistardeild Listaháskóla Íslands frá og með 1. ágúst 2016.
 
Jóhannes hefur starfað sem aðjúnkt í fræðigreinum við myndlistardeildina frá árinu 2013 og síðastliðið ár setið í stöðu fagstjóra fræðigreina í afleysingum.  Samhliða vinnu sinni við Listaháskóla Íslands hefur Jóhannes starfað fyrir Siðfræðistofnun Háskóla Íslands að verkefninu NERRI og verið ritsstjóri Hugar, tímarits um heimspeki.  Jóhannes starfaði sem aðstoðarkennari við heimspekideild Háskólands í Calgary, Kanada og Háskóla Íslands á árunum 2008-2011.  Einnig hefur Jóhannes skrifað fjölda sýningartexta og haldið erindi um málefni tengt heimspeki listarinnar, málspeki og hugspeki.
 
Jóhannes Dagsson lauk doktorsnámi í heimspeki (PhD) frá Háskólanum í Calgary, Kanada 2012. Áður hafði hann lagt stund á heimspeki og bókmenntir við Háskóla Íslands þar sem hann lauk meistaranámi í heimspeki 2009. Jóhannes er menntaður í myndlist frá Edinbourgh College of Art og hefur tekið þátt í sýningum hér heima og erlendis.