Tónlistardeild Listaháskóla Íslands er afar stolt af  sínu fólki en bæði starfsfólk skólans og fyrrum nemendur voru verðlaunuð fyrir framlag sitt til íslensks tónlistarlífs.  

Í flokknum Sígild- og samtímatónlist, hlutu Sigurður Halldórsson fagstjóri og Þorgerður Edda Hall verkefnisstjóri í  Sköpun, miðlun

og frumkvöðlastarfi verðlaun fyrir Tónlistarviðburð ársins, en það var Tónlistarhátíðin Sumartónleikar í Skálholtskirkju.

Elfa Rún Kristinsdóttir var með fyrstu nemendunum sem útskrifuðust með 

B.Mus gráðu frá Tónlistardeild Listaháskólans eða árið 2003. Hún er 

framúrskarandi fiðluleikari og hlaut verðlaunin Plata ársins fyrir plötu sína Fantasíur fyrir einleiksfiðlu eftir G.P.Telemann í flokknum Sígild- og samtímatónlist. 

Gunnar Benediktsson, aðjúnkt og fagstjóri í Skapandi tónlistarmiðlun, og félagar hans í Skálmöld hlutu tvenn verðlaun í flokknum Popp og rokk,  annars vegar sem Tónlistarflytjendur ársins og hins vegar fyrir Tónlistarviðburð ársins í sama flokki. Þar var um að ræða tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg. Frábær frammistaða hjá þeim félögum.

Valdimar Guðmundsson útskrifaðist með BA gráðu í tónsmíðum frá Listaháskólanum árið 2010. Hann er afar hæfileikaríkur og eftirsóttur söngvari og hlaut hann verðlaun í flokknum Popp og rokk sem Söngvari ársins.

Listaháskólinn óskar þeim öllum innilega til hamingju með árangurinn.