Atli Ingólfsson hefur verið ráðinn prófessor í tónsmíðum við tónlistardeild Listaháskólans.
 
Atli hefur starfað sem tónskáld í yfir tvo áratugi og er mjög virkur á innanlands- og alþjóðavettvangi. Í tónsmíðum sínum hefur hann samið verk af margvíslegu tagi, þ.á.m. leikhúsverk, hljómsveitarverk, kammerverk, kórverk, einleiksverk og hljóðgjörninga.
 
Atli hefur mikla reynslu af kennslu í tónsmíðum á háskólastigi en hann hefur kennt tónsmíðar í bæði einkakennslu og hóptímum við Listaháskóla Íslands í um áratug.
 
Atli lauk námi í tónsmíðum frá Conservatorio “G. Verdi” í Mílanó á Ítalíu, burtfararprófi í gítarleik og lokaprófi frá tónfræðideild Tónlistarskólans í Reykjavík. Þá hefur Atli einnig lokið BA prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands.