Fyrir hvern er námskeiðið: Fyrir fólk sem er hrætt við að gera mistök og þarf að æfa sig í því að læra af þeim í staðinn fyrir að fyrirlíta þau. 

Hræðistu mistök? Á þessu stutta námskeiði lærum við að læra af mistökum og nota þau sem skapandi tæki í staðinn fyrir að óttast þau. Námskeiðið samanstendur af tveimur fyrirlestrum og umræðutímum og einum tíma þar sem þátttakendur sýna afrasktur verkefnis sem lagt verður fyrir þá. Verkefnið felur í sér samsetningu á einhverjum hlut sem viðkomandi sýnir/kynnir fyrir hinum þátttakendunum og kennaranum. Einhvers konar mistök verða að eiga sér stað á þessari kynningu sem leiða af sér klúður og vesen. 

Kennari námskeiðisins er sviðslistamaðurinn Ragnar Ísleifur Bragason. Hann fæddist í Reykjavík árið 1977. Hann útskrifaðist frá sviðshöfundarbraut Listaháskóla Íslands. Árið 2008 gaf hann út ljóðabókina Á meðan. Hann hefur unnið með ýmsum leikhópum t.a.m. Vaðal, Kriðpleir og 16 elskendum. Undanfarin ár hefur hann tekið þátt í bæði dans- og leiksýningum á borð við Eyjaskegg, Kæra manneskja, Blokk, Tiny Guy, Síðbúin rannsókn, Krísufundur, Ævisaga einhvers, Sýning ársins og Rannsókn ársins: leitin að tilgangi lífsins. Ragnar er einnig meðhöfundur og aðalleikari í tveimur útvarpsverkum með leikhópnum Kriðpleir, Bónusferðin og Litlu jólin sem voru flutt á RÚV. 

Lærdómsviðmið: Í lok námskeiðs eiga nemendur að vera óhræddari við að gera mistök bæði í skapandi ferli og lífinu og geta nýtt sér þau til framdráttar og haft gaman að þeim í staðinn fyrir að óttast þau.
Námsmat: Staðið eða ekki staðið. 
Kennari: Ragnar Ísleifur Bragason sviðslistamaður. 
Staður og stund: Kennt verður í fjarkennslu á rauntíma miðvikudagana 11., 18. og 25. nóvember 2020 
Tími: kl. 16:00-18:00
Einingar: 1 ECTS
Forkröfur: stúdentspróf 
Verð: 1 ECTS eininga námskeið kostar 15.250 kr. (án eininga) / 20.400 kr. (með einingum)

Umsóknareyðublað

Kjósi nemendur að taka námskeið án eininga gefur kennari verkefnum nemenda ekki endurgjöf. Verðmunur ræðst þ.a.l. af auknu vinnuálagi kennara.
Námskeið sem tekin eru án eininga geta þó skráðst, án eininga, á námsferil nemenda. Greiða þarf námskeiðagjöld 1 viku áður en námskeið hefjast til þess að staðfesta þátttöku.
Nánari upplýsingar veitir: Karólína Stefánsdóttir, verkefnastjóri Opna Listaháskólans, karolinas [at] lhi.is