Frá hugmynd - að verkefni - að fyrirtæki
Á þessu námskeiði verða kennd þau grundvallaratriði er snúa að frumkvöðlastarfi innan skapandi greina og hvernig skapa skuli viðskiptamódel eða fyrirtæki í kringum eigin listsköpun. Varpað verður ljósi á nokkrar af þeim leiðum sem mögulegar eru til að tengja listsköpun við ferli nýsköpunar. Hvernig er hægt að gera tekjur sjálfbærari án þess að fórna listrænu frelsi? Ennfremur; hvaða tæki og tól eru nauðsynleg þegar stofna skal fyrirtæki?
 
Námskeiðið er í senn fræðilegt og hagnýtt og skiptist í tvo hluta. Annars vegar verður farið yfir helstu skilgreiningar á hugtökunum nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi ásamt því að farið verður yfir stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi með tilliti til þeirra þátta sem gagnast gætu listamönnum. Hins vegar verður leitast við að kynna þáttakendum hagnýt verkfæri og tæki til að nýta sér við þróun sjálfstæðra listrænna verkefna. Í því samhengi verður viðskiptamódelið Business Model Canvas kynnt og nemendum gefinn kostur á að nota hugmyndafræði ,,strigalíkansins’’ til að þróa og útfæra eigin hugmyndir. Með því móti öðlast nemendur þjálfun í að beita aðferðum nýsköpunar í viðskiptalegum tilgangi á eigin verkefni.
 
Markmið námskeiðisins er að nemendur öðlist skilning og þekkingu á sviði nýsköpunar og viðskiptaþróunar og geti beitt þeim aðferðum innan ólíkra listgreina. Einnig að nemendur geti átt frumkvæði að verkefnum á sviði nýsköpunar og lista. Ætlunin er þannig að styðja við listamanninn sem frumkvöðul.
 
Hvað er kennt: Stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi kortlagt og opnað á tengslamyndun við starfandi frumkvöðla á sviði skapandi greina. Farið yfir nýsköpunarferlið og helstu hugtök tengd nýsköpun og  frumkvöðlastarfsemi.
 
Helstu kennsluþættir námskeiðsins:
 • Mótun hugmyndar
 • Virðiskjarninn og viðskiptavinurinn
 • Vöruþróun og endurgjöf viðskiptavina
 • Verkefnastjórnun og markmiðasetning
 • Tekjumódel
 • Markaðssetning og sala
 • Fjárhagsáætlanir,  fjármögnun og styrkumsóknir
 • Viðskiptaáætlanir og kynningar
 
Lærdómsviðmið:
Í lok námskeiðs eiga nemendur að:
 • Hafa öðlast  þekkingu á meginþáttum nýsköpunar og frumkvöðlastarfs
 • Hafa öðlast þekkingu á ferlinu við stofnun fyrirtækis í kringum listsköpun sína
 • Hafa öðlast skilning á verkefnastjórnun og fjármögnun
 • Hafa öðlast reynslu af því að kynna verkefni sín sem vænleg viðskiptatækifæri
Námsmat: Símat byggt á þátttöku í tímum 25%, verkefni 25% og lokaverkefni 50%.
Nánar um lokaverkefni: Nemendur skila inn kynningu þar sem gerð er grein fyrir viðskiptahugmynd og hún kynnt fyrir samnemendum. Í því felst staðfesting á að nemandi hafi tileinkað sér þekkingu og færni á viðkomandi sviði. Eftirfarandi þætti þarf að útlista:                 
 • Vandamál / Þörf
 • Verkefnið / Varan                                                                                 
 • Fjármögnun og tekjumódel                   
 • Innkoma á markað og viðskiptavinir                                                      
 • Samstarfsaðilar og samkeppnisaðilar
 • Vörður / Tímalína
 • Afhverju núna?
 • Teymið / Listamaðurinn að baki verkefnisins
Kennarar: Edda Konráðsdóttir og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir 
Fyrir hverja er námskeiðið: Listamenn og aðra sem starfa innan skapandi greina og vilja læra um nýsköpun og frumkvöðlastarf. Námskeiðið getur nýst nemendum til að stofna eigin fyrirtæki í kringum störf sín.
Kennslutungumál: Íslensku
Staðsetning og tími: Fjarkennsla, föstudaga frá kl. 9:00 til 12:00
Kennslutímabil: Alls átta skipti, 19. mars til 14. maí 2021
Forkröfur: Engar forkröfur en aldurstakmark 18 ára, ef námskeiðið er tekið til ECTS eininga þarf nemandi að hafa stúdentspróf.
Einingar: 4 ECTS
Verð: 4ra eininga námskeið - 49.000 kr (án eininga) / 61.200 kr. (með einingum) 
 
Kjósi nemendur að taka námskeið án eininga gefur kennari verkefnum nemenda ekki endurgjöf. Verðmunur ræðast þ.a.l. af auknu vinnuálagi kennara. Námskeið sem tekin eru án eininga geta þó skráðst, án eininga á námsferil nemenda. Greiða þarf námskeiðagjöld 3 vikum áður en námskeið hefjast til þess að staðfesta þátttöku. 
 
Að baki námskeiðsins standa stjórnendur og verkefnastjórar sem hafa mikla reynslu af kennslu í frumkvöðlanámi innan háskólanna, gerð og framkvæmd vinnustofa, hraðla og annarra verkefna innan nýsköpunarsamfélagsins hér á landi og erlendis.
 
Edda Konráðsdóttir rekur sitt eigið ráðgjafafyrirtæki með áherslu á viðskiptaþróun fyrir frumkvöðla og listamenn og er ein af stofnendum Nýsköpunarvikunnar. Hún hefur jafnframt sinnt kennslu á nýsköpunarnámi í Háskólanum í Reykjavík og stjórnendanámi Háskólans á Akureyri.
 
Melkorka Sigríður Magnúsdóttir er ein af stofnendum Nýsköpunarvikunnar, kennari og ráðgjafi. Hún er jafnframt sjálfstætt starfandi danshöfundur og tónlistarkona og hefur komið að fjölmörgum stjórnunarverkefnum innan sviðslista síðastliðinn áratug.
 
Samanlagt búa þær að yfirgripsmikilli reynslu af verkefnum og viðburðum í gegnum störf sín fyrir Icelandic Startups og gegnum önnur sjálfstætt starfandi verkefni innan tæknigeirans, ferðaþjónustunnar og skapandi greina. Edda stýrði til að mynda áður tæknihraðlinum Startup Reykjavík og Melkorka stýrði áður Til Sjávar og Sveita, hraðli fyrir frumkvöðla í landbúnaði og sjávarútvegi og Firestarter - Reykjavik Music Accelerator, hraðli fyrir frumkvöðla í tónlist. Þær hafa víðtækt tengslanet í frumkvöðlaheiminum bæði hérlendis og erlendis.
 
Nánari upplýsingar: Karólína Stefánsdóttir, verkefnastjóri Opna LHÍ, karolinas [at] lhi.is

Umsóknareyðublað