Eftirfarandi yfirlýsing Steinunnar Knútsdóttur, forseta sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands, birtist á samfélagsmiðlunum 29. nóvember síðast liðin.
 
Ég er slegin yfir þeim sögum sem nú hafa komið fram í fjölmiðlum um kynferðislega áreitni og eitrað andrúmsloft í sviðslistum, bæði þeim sem snúa að náminu og því sem snýr að starfsumhverfinu. Þetta verður að breytast.
Ekkert sem viðkemur deildinni í þeim frásögnum sem hafa komið fram verður þaggað, allra síst það sem tengist starfi okkar í dag.
 
Allt þarf að koma fram, enda eru það framtíðar hagsmunir fagumhverfisins sem liggja undir.
Ég harma það sem miður hefur farið í starfi deildarinnar og stend heilshugar með breytingum til batnaðar.
 
Ég er kona í sviðslistum sem hef þurft að þola kynferðislega áreitni, misrétti og misbeitingu valds á mínum ferli og stend með þolendum en ekki gerendum.
 
Við í sviðslistadeild viljum taka á þessum málum fyrir opnum dyrum, án leyndarhyggju. Hér að neðan er listi yfir það sem hefur farið fram í deildinni frá því að fyrrverandi nemandi birtir status á facebook þar sem starfsemi deildarinnar er gagnrýnd um miðjan október.
 
• Málið tekið fyrir á fagstjórafundi, þar sem farið er yfir atriði sem birtast á facebook.
• Deildarforseti býður tiltekin fyrrverandi nemanda á fund til að ræða betur gagnrýnina og býður henni að hafa með sér fleiri konur úr sviðslistum sem hafa svipaðar sögur að segja.
• Deildarforseti fundar með þremur fyrrverandi nemendum. Þar voru sértæk atriði frá námstíma þeirra tíunduð þar sem þær lýsa hvernig gengið var yfir velsæmismörk þeirra. Atriðin voru mismunandi eðlis og voru frá mismunandi tímum og vörðuðu fjóra kennara. Einnig var talað um kynjahlutföll kennara á leikarabraut, birtingamyndir kvenna, kvennhlutverk og andrúmsloft á brautinni.
• Rektor upplýstur um málið.
• Deildarforseti fundar með mannauðsstjóra Lhí um viðbragðsáætlanir.
• Deildin sendir frá sér yfirlýsingu á facebook til stuðnings Metoo.
• Deildarforseti fundar með fagstjóra og fulltrúa kennara leikarabrautar um öll atriðin sem tilkynnt voru. Farið yfir kennsluhætti, inntökuferli og ráðningar stundakennara með tilliti til þessara þátta.
• Deildarforseti talar við alla nafngreinda kennara og fer yfir umkvörtunarefnin með þeim.
• Áætlanir gerðar á leikarabraut til að ráðast í breytingar á ferlum við inntökupróf.
• Fundur haldinn með föstu starfsfólki og kennurum deildarinnar um viðbragsaðgerðir í deildinni.
• Haldinn opinber umræðufundur um birtingamyndir feðraveldis með þáttöku allra nemenda sviðslistadeildar.
• Kynjafræðingur frá Félagsvísindastofnun fenginn á fund deildarráðs og vandi deildarinnar yfirfarinn með öllu starfsfólki, fulltrúum nemenda og mannauðsstjóra LHÍ.
• Stofnaður vinnuhópur um jafnréttismál sem á að gera viðbragðsáætlun fyrir starfsemi deildarinnar, með fulltrúum kennara og nemenda.
• Rætt við með nemendum leikarabrautar og sviðshöfundabrautar um málið á árlegum fundi deildarforseta með nemendum og atburðarásin rakin.
• Málið kynnt og tekið fyrir í framkvæmdaráði Listaháskólans.
(Leynilegur facebook hópur safnar sögum úr sviðslistum og opinberar þær í fjölmiðlum)
• Rektor og forseti sviðslistadeildar sitja fyrir svörum um viðbrögð Listaháskólans við metoo í síðdegisútvarp Rásar tvö.
• Rektor situr ásamt Þjóðleikhússtjóra í Kastljósi þar sem rætt er um viðbrögð stofnana við opinberununum.
• Málin er tekið fyrir í framkvæmdaráði Lhí og farið yfir úrræði skólans.
• Vinnuhópur deildarinnar vinnur nú að endurskoðun jafnréttisstefnu sviðslistadeildar, siðareglum og aðgerðaráætlun um breytingar á verklagi og kennsluháttum. Áætlað að vinnuhópur skili niðurstöðum í desember sem verða lagðar til samþykktar fyrir nemendur og kennara fyrir jólafrí.
8.desember verður haldin opin málstofa með kynjafræðingi í deildinni til að ræða birtingarmyndir kynjanna og kynjakerfið sem umkringir okkur. Þar verður hægt að eiga samtal um andrúmsloft og menningu sviðslistadeildar. Þessi fundur verður opin öllum.
 
með kærleika, hlýju og von í brjósti um að þetta náttúruafl sem nú ríður yfir nái að ryðja úr vegi meingölluðu kynjakerfi.
Steinunn
forseti sviðslistadeildar