Ungir einleikarar 2021 // Marta Kristín Friðriksdóttir, sópransöngkona 

Líkt og fram kom á fréttaveitu LHÍ fyrir skömmu hafa sigurvegarar Ungra einleikara 2021 verið kynntir.  Það voru þau Marta Kristín Friðriksdóttir, Íris Björk Gunnarsdóttir, Jón Arnar Einarsson og Johanna Brynja Ruminy sem þóttu hlutskörpust að þessu sinni en þau koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu fimmtudaginn 20.maí. Undirbúningur tónleikanna er hafinn og á næstu vikum kynnumst við einleikurunum örlítið betur. 
Við byrjum á Mörtu Kristínu Friðriksdóttur, 24 ára sópransöngkonu frá Reykjavík. 

marta_1.jpg

Frá Hlíðunum í Reykjavík til Vínarborgar

Marta Kristín Friðriksdóttir er fædd og uppalin í Hlíðunum í Reykjavík. Hún stundar nú nám við Tónlistarháskóla Vínarborgar undir handleiðslu Regine Köbler.
Tónlistarferill Mörtu hófst snemma er hún gekk í Stúlknakór Reykjavíkur undir stjórn Margrétar Pálmadóttur.  Söngurinn átti hug hennar allan og 12 ára gömul hóf Marta einsöngsnám við söngskólann Domus vox. Haustið 2012, þá 16 ára gömul, lá leiðin í Söngskólannn í Reykjavík þar sem Signý Sæmundsdóttir sá um leiðsögn. Haustið 2017 hélt Marta síðan til Vínarborgar þar sem hún stundar nú nám við Universität für Musik und darstellende Kunst Wien.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Marta tekið þátt í fjölmörgum tónlistarverkefnum og uppsetningum bæði innanlands og utan. Í janúar 2017 sigraði hún klassísku söngkeppnina „Vox Domini“ sem haldin var í Salnum í Kópavogi á vegum FÍS og hlaut einnig titilinn „Rödd ársins“. Marta keppti einnig einni virtustu söngkeppni heims, Neue Stimmen, sem fram fór í Gütersloh í Þýskalandi árið 2019 og komst alla leið í loka umferð keppninnar.  

Tónlistin í fyrirrúmi

Marta hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum og viðburðum síðastliðin ár. Þá hefur hún farið með hlutverk í ýmsum óperum s.s. Paminu í Töfraflautunni eftir W. A. Mozart, Sandmann og Taumännchen í Hans og Grétu eftir E. Humperdinck, Adinu í Ástardrykknum eftir G. Donizetti og Amore í Orfeo og Euridice eftir C. W. Gluck. Marta hefur sótt fjölmarga masterklassa á síðastliðnum árum og má þar nefna Neue Stimmen masterklassa í október 2020 en í kjölfar góðs gengis í keppninni „Neue Stimmen“ fékk hún boð um að taka þátt í masterklassa á vegum keppninnar, Mediterranean opera studio and festival á Sikiley sumarið 2018 með Jack LiVigni, Nelly Miricioiu, Carlos Conde, David Gowland og Brian Dickie og masterklassa í Zell an der Pram í Austurríki sumrin 2016 og 2017.
 

marta_5.jpg

Marta hefur einstaka útgeislun og líflegan persónuleika sem skilar sér svo sannarlega í flutningi hennar. Við spurðum Mörtu nokkurra spurninga varðandi keppnina, ferlið og framtíðina en það er ýmislegt á döfinni hjá sópransöngkonunni.

Hvað varð til þess að þú tókst þátt í keppninni Ungir Einleikarar og hvernig hefur ferlið reynst?

Það hefur alltaf verið eitt af mínum aðalmarkmiðum sem klassískur tónlistarnemi að taka þátt í Ungum Einleikurum. Að fá tækifæri til að flytja tónlist með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg er eitthvað sem flesta tónlistarnema á Íslandi dreymir um og þar er ég engin undantekning. Ferlið hefur gengið gríðarlega vel og ég hef haft góðan tíma til að undirbúa verkin sem ég ætla að flytja. Ég er einfaldlega ofboðslega þakklát að vera einn af sigurvegurum keppninnar. 

Hvaða verk munt þú flytja og hvers vegna urðu þau fyrir valinu?

Ég mun flytja þrjár aríur. Crudele! Ah non mio bene…. Non mi dir úr Don Giovanni eftir W.A.MozartCiel! Dammi coraggio… Tutte le feste al tempio úr Rigoletto eftir G.Verdi og Tu che di gel sei cinta úr Turandot eftir G.Puccini. þar að auki flyt ég Draumalandið eftir Sigfús Einarsson við ljóð Guðmundar Magnússonar.

Þessi verk hafa fylgt mér frekar lengi og mér finnst röddin mín hafa þroskast mikið við að æfa þau. Mér fannst mikilvægt að sýna fjölbreytni í verkefnavali mínu og eru öll verkin eftir mismunandi tónskáld og krefjast ólíkra hluta af mér sem söngkonu. Það skipti mig einnig miklu máli að flytja eitthvað íslenskt verk. Búandi erlendis finnst mér alltaf jafn yndislegt að koma heim og fá tækifæri til að flytja tónlist fyrir íslendinga og því fannst mér sérstaklega við hæfi að flytja eitt af mínum uppáhaldslögum, Draumalandið.

Hvað telur þú að þessi reynsla geti haft í för með sér?

Það að vera meðal sigurvegara Ungra Einleikara eykur auðvitað sjálfstraust mitt sem tónlistarkonu. Ég er gríðarlega spennt að fá að koma fram með Sinfóníuhljómsveitinni, syngja í Eldborg og fá tækifæri til að sýna fólki heima á Íslandi að hverju ég er búin að vera að vinna síðastliðin ár í Vínarborg. Árangur minn í keppninni sýnir mér einnig að ég er á réttri braut og ætla ég auðvitað að halda ótrauð áfram að ná markmiðum mínum sem söngkona.

Hvað er framundan?

Í mars mun ég fara með hlutverk Næturdrottningarinnar í uppfærslu af Töfraflautunni eftir W. A. Mozart í Vínarborg. Nú þegar er búið að fresta sýningunni um tæpt ár vegna aðstæðna en ég vona að allt gangi upp og að hægt verði að sýna í mars. Í lok júní stefni ég svo á að ljúka bakkalárprófi frá Tónlistarháskólanum í Vínarborg.

Það vantar ekki drifkraftinn hjá sópransöngkonunni Mörtu sem nú er að ljúka sínu síðasta misseri í bakkalárnámi í Vínarborg, fer með hlutverk Næturdrottningarinnar í uppsetningu á Töfraflautunni og undirbýr flutning sinn fyrir tónleika Ungra einleikara í Hörpu í maí. Aðspurð hvort að hún vilji koma einhverju á framfæri að lokum segir hún

,,Mig langar enn einu sinni að þakka fyrir þetta frábæra tækifæri ásamt því að þakka öllum þeim sem hafa stutt við bakið á mér, sérstaklega foreldrum mínum sem með óbilandi trú hvetja mig áfram. Að vera á þessum stað í náminu og fá þetta gríðarstóra tækifæri er ómetanlegt."