Thomas Pausz, lektor við hönnunar- og arkitektúrdeild Listháskóla Íslands tekur þátt í tveimur alþjóðlegum samsýningum um þessar mundir, annars vegar í Gent og hins vegar í London.

 
Sýningin í Gent opnaði í Design Museum Gent 17. maí síðastliðinn og ber nafnið Creatures Made to Measure, sýningastjóri er Evelien Bracke. Þar vann Thomas með Charlotte Collin, grafískum hönnuði að verkinu Safari Spectral.Thomas sá sjálfur um heildarhugmyndina og liststjórn verksins en Argitxu Etchebarne og Ma Kowasz hönnuðu hljóðmynd fyrir verkið með hjálp fyrsta árs meistaranema í hönnun við Listaháskóla Íslands.
Sýningin Creatures Made to Measures sýndi samtímahönnun sem gengur útfrá því að velta fyrir sér sambandi ólíkra dýrategunda. Thomas fékk það verkefni frá sýningarstjóra að gera stóra innsetningu í garði safnsins.
 
Verkefnið Safari Spectral er nokkurs konar skáldskapar-hönnun þar sem framtíð dýralífsmynda er velt upp. Verkefnið tekur mið af sögu dýralífsmynda og þörf mannsins til að ná ljósmyndum af hinu villta. Á fyrstu tímum ljósmyndunar var nauðsynlegt að stoppa dýrin upp til að ná myndum af þeim í náttúrulegu umhverfi. Í dag, sökum hinna alltumlykjandi stafrænu„ljósmynda gildra,“ geta jafnvel villtustu dýrategundir tekið af sér sjálfu (e. selfie).
Fyrir innsetninguna hannaði Thomas tvær útgáfur af nútímalegum ljósmynda „felum.“ „Felur“ eru sérstakar gerðir af felulituðum tjöldum sem dýralífs ljósmyndarar nota til að vera ósýnilegir í hinu náttúrulega umhverfi og eiga þannig frekari möguleika á að ná ljósmyndum af villtum dýrunum. Þessar „litrófs felur“ (e. Spectral Hides) bjóða almenningi að upplifa væntingarnar og biðina sem er ómissiandi þáttur af náttúruskoðun. Tjöldin eru klædd með sérhönnuðu prentuðu felulituðu efni sem var innblásið af arkitektúr sjálfs safnsins, en með því er bent á að upplifun á hinu villta er líka að finna í hjarta borgarlandslagsins og í menningarlegum rýmum. Inni í „felunum“ má sjá myndir af „litrófs“ dýrategundum birtast og hverfa til skiptist.   
 
Á heimasíðu hönnunarsafnsins má lesa sér frekar til um sýninguna sem stendur til 29. september 2019.

Ljósmyndir frá Gent:
 

 

Safari Spectral by Thomas Pausz Studio / Pattern design by formulaprojects.net

Sýningin í London sem opnaði þann 18. maí í Victoria & Albert Museum gengur undir nafninu FOOD: Bigger than the Plate.

Sýningin, sem er opin til 20. október 2019, gengur út á að rannsaka og sýna hvernig skapandi einstaklingar, samfélög og stofnanir hafa með róttækum hugmyndum breytt því hvernig við ræktum, dreifum og upplifum mat. Með því að bjóða gestum sýningarinnar í ferðalag skynjunarinnar um hringrás matarins, frá moltu til matarborðs, er spurt hvernig það sem við veljum í sameiningu geti leitt til sjálfbærari, réttlátari og ljúfengari framtíðar matarins, á ófyrirsjáanlegan og jafnvel fjörugan máta.
Verkið sem Thomas Pausz sýnir á FOOD: Bigger than the Plate ber titilinn Non Flowers for a Hoverfly.
 
Að verkinu unnu ásamt Thomasi þau Dr. Shannon Olsson og Vikram Pradhan, rannsakendur hjá Náttúrumiðstöð líffræðilegra vísinda í Bangalore (e. the Natural Center for Biological Sciences) Verkið gengur út á að skilja hvatir frjókornadreifara á borð við býflugur betur til að geta bætt samvinnu manna og skordýra við matarframleiðslu. Verkefnið sjálft nýtir sér sýndarveruleika fyrir býflugurnar til að rannsaka hvernig þær skynja heiminn og umhverfið. Niðurstöður rannsóknarinnar eru síðan notaðar til að skapa form sem virka eins og nokkurs konar gerviblóm. Gerviblómin draga flugurnar að sér, flugurnar aðstoða við frjókornadreifingu á stærri skala og auka þannig framleiðsluna. Non Flowers for a Hoverfly tekst á vissan hátt við hið hefðbundna starf býflugnabóndans: Býflugnabóndinn hagnast á vinnu býfluganna með því að sjá til þess að skapa þeim kjöraðstæður. Hver tegund getur hagnast á hæfni og getu hinna tegundanna. Þetta er í algjörri mótsögn við tengsl manna og dýra sem byggir á valdi manna með misnotkun á dýrum og tíðkast í hinum hefðbundna búskap samtímans Sú nálgun sem Thomas bendir á með þessu verki veltir fram róttækum breytingum á sambandi tegundanna, þar sem samstarf og samlíf ríkir.
 
Listaháskólinn óskar Thomasi hjartanlega til hamingju með sýningarnar og hvetur alla þá sem eiga leið um Gent eða London að skoða þessar spennandi og framsýnu sýningar.
 

 

 
Verk: Thomas Pausz Studio, Dr Shannon Olsson, Vikram Pradhan.