Ráðstefnuborgin Reykjavík undirritar samstarfssamning við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands

 

Þann 9. apríl var undirritað samstarfssamkomulag milli Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur (Meet in Reykjavík) og Háskóla Íslands (HÍ), Háskólans í Reykjavík (HR) og Listaháskóla Íslands (LHÍ). Markmiðið með samkomulaginu er að fjölga alþjóðlegum akademískum fundum og ráðstefnum á vegum háskólanna hér á landi.

Rektorar háskólanna þriggja Jón Atli Benediktsson rektor HÍ, Ari Kristinn Jónsson rektor HR og Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor LHÍ undirrituðu samkomulagið ásamt Þorsteini Erni Guðmundssyni framkvæmdastjóra Meet in Reykjavík og Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Meet in Reykjavík mun aðstoða starfsfólk háskólanna og samstarfsaðila þeirra við undirbúning, upplýsingaöflun og tilboðsgerð fyrir alþjóðlega fundi og ráðstefnur sem tengjast háskólunum með einhverjum hætti. Þá mun Meet in Reykjavík veita upplýsingar og halda kynningar um funda- og ráðstefnuaðstöðu háskólanna til alþjóðlegra samtaka og skipuleggjanda funda og ráðstefna.

Þorsteinn Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík segir samninginn mikilvægt skref í að efla Reykjavík sem alþjólega ráðstefnuborg. „Við höfum átt ágætt samstarf við háskólanna undanfarin ár en nú viljum við setja aukinn kraft í samstarfið og fara í markvissari leit að verkefnum sem henta áfangastaðnum og háskólasamfélaginu hér á landi.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir öfluga funda og ráðstefnuferðaþjónustu styðja við markmið borgarinnar um fjölbreytt og öflugt atvinnulíf. „Við viljum byggja upp borgina sem háskólaborg og sem þekkingarsamfélag. Umhverfi þar sem fyrirtæki hafi góð tækifæri til að vaxa og dafna. Það má því segja að mörg markmið komi heim og saman í því samstarfi nú hefur verið undirritað.

Í umræðum í kjölfar undirritunar kom fram að á undanförnum árum hafi Ísland mótað sér ákveðna sérstöðu í jafnréttismálum, jarðvarma og málefnum norðurslóða. Þetta hafi meðal annars skilað sér í auknum áhuga á funda og ráðstefnuhaldi tengdum þessum málaflokkum hér á landi. Ísland hafi burði til þess að taka forustu í fleiri málaflokkum og samningurinn sé liður í því. Akadémískar ráðstefnur séu öflug leið til þess vekja athygli á rannsóknarstarfi háskólanna, styrkja orðspor þeirra og mynda tengsl við erlenda fræðimenn. Þá hafa akademískar ráðstefnur vægi þegar kemur að uppröðun háskóla á alþjóðlega samanburðalista.