Ólöf Nordal, dósent við myndlistardeild, opnar yfirlitssýninguna Úngl á Kjarvalsstöðum laugardaginn 19. október kl. 16:00.

Ólöf Nordal er fædd árið 1961. Hún vísar gjarnan í verkum sínum til þjóðsagnaarfsins, þjóðlegrar arfleifðar og menningarlegs minnis sem hún setur í nútímalegt samhengi. Náttúran og tengsl okkar við landið eru henni einnig hugleikin. Ólöf nam textíllist við Mynd- og handíðaskóla Íslands. Þá tók við nám í Cranbrook Academy of Art í Michigan og árið 1993 útskrifaðist hún frá höggmyndadeild Yale háskóla. Ólöf hefur gegnt stöðu dósents við myndlistardeild Listaháskóla Íslands frá árinu 2016.

Ólöf leitast við að kanna og rannsaka byggingarefni goðsagna, hún leitar uppi það sem fellur utan hins hefðbundna og verður þannig uppspretta safna og trúar. Verk Ólafar varpa iðulega ljósi á málefni líðandi stundar um leið og þau vísa bæði fram og aftur í tíma.

Sýningin er hluti af því markmiði Listasafns Reykjavíkur að rannsaka og kynna feril mikilsverðra starfandi listamanna og er sýningunni fylgt eftir með ítarlegri sýningarskrá.

Facebook viðburður.