Verkefnið „Hið sveigjanlega helgihald: Hefðir og samhengi Gregorsöngs á Íslandi, 1500-1700“ fékk nýverið þriggja ára styrk úr Rannsóknasjóði. Markmið verkefnisins er að rannsaka þá breytingu sem varð í íslensku tónlistarlífi á síðari hluta 16. aldar og hvernig kirkjunnar menn leituðu ólíkra leiða til að steypa saman í nýtt helgihald hinn gamla kaþólska söngarf og nýrri lútherska söngva. Sérstakri athygli verður beint að handritum sem lítt hafa verið könnuð en sem benda til þess að ýmsar ólíkar leiðir hafi verið farnar í messusöng áður en loks náðist sátt um eitt lútherskt helgihald fyrir allt Ísland með útgáfu Grallarans, íslensku messusöngsbókarinnar, árið 1594.
 
Verkefnisstjóri er Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur en einnig taka þátt í verkefninu Svanhildur Óskarsdóttir rannsóknardósent á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og meistara-eða doktorsnemar sem vinna undir leiðsögn þeirra. Sérstök ráðgjafarnefnd erlendra sérfræðinga verður þeim til halds og trausts og mun funda á Íslandi meðan á verkefninu stendur. Nefndina skipa þau Thomas Kelly (Harvard-háskóla), Andreas Haug (Institut für Musikforschung, Würzburg), Gisela Attinger (Konunglega bókasafninu, Ósló), Daniel Saulnier (Tours-háskóla) og Mattias Lundberg (Uppsala-háskóla).