Gunnar Benediktsson hlaut á dögunum framgang í stöðu dósents við tónlistardeild Listaháskóla Íslands og var á sama tíma endurráðinn sem fagstjóri skapandi tónlistarmiðlunar.

Gunnar hefur gegnt stöðu fagstjóra og aðjúnkts við deildina frá árinu 2014 og stýrt námi í skapandi tónlistarmiðlun sem er námsbraut á BA-stigi við tónlistardeild LHÍ.

Gunnar Benediktsson (f. 1976)  lauk mastersnámi í skapandi tónlistarmiðlun frá Guildhall School of Music and Drama árið 2000 og þar áður (1997) blásarakennaraprófi og burtfararprófi á óbó frá Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Samhliða starfi við LHÍ hefur Gunnar verið mikilvirkur í íslensku tónlistarlífi um árabil, útsett og samið tónlist í ótal leikhús- og sjónvarpsverkefnum, (þar af hlotið tvær tilnefningar til Grímuverðlauna), staðið fyrir tónlistarnámskeiðum um allt land í samstarfi við skóla, leikfélög og vinnustaði, stjórnað fjölda kóra (Vocal Project, kór Verslunarskóla Íslands, Árnesingakórnum svo eitthvað sé nefnt) og samið tónlist, sungið og verið hljómborðsleikari með hljómsveitinni Skálmöld en Gunnar er einn stofnenda sveitarinnar sem hefur sent frá sér sex plötur frá árinu 2010, farið í fjölda tónleikaferðalaga og hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin og Menningarverðlaun DV.

Árið 2004 hlaut Gunnar hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir skapandi starf í tónmenntakennslu.

LHÍ óskar Gunnari hjartanlega til hamingju með framganginn og endurráðninguna.