Fraser Muggeridge hefur verið ráðinn gestaprófessor í grafískri hönnun við hönnunardeild Listaháskóla Íslands til þriggja ára.
 
Fraser er farsæll grafískur hönnuður, kennari og rannsakandi og hefur frá árinu 2001 rekið hönnunarstúdío í London.
 
Í verkum sínum leggur Fraser áherslu á týpografíska nálgun og hefur unnið að hönnun bóka, útgáfu, mörkun, sjónvarpsauglýsingum, hreyfimyndum og sýningarhönnun.
 
Meðal viðskiptavina hans eru Tate Gallery, New York Times og Dhaka Art Summit auk þess sem hann hefur unnið með ólíkum listamönnum á borð við Anish Kapoor, Jeremy Deller, Fiona Banner og Laure Prouvost auk tónlistarfólksins Taylor Swift, Hot Chip, Orbitat og John Grant.
 
Fraser hefur viðamikla kennslureynslu en hann hefur síðastliðin 15 ár kennt námskeið og vinnustofur í mörgum af þekktustu hönnunarskólum Evrópu og má þar nefna University of Reading, Royal College of Art, Hochschule für Grafik und Buchkunst Leipzig, Werkplaats Typographie, Royal Academy of Fine Arts (KASK), Elisava og Konstfack.
 
Árið 2010 stofnaði Fraser Typography Summer School sem sjálfstæða rannsóknarleið í leturhönnun en skólinn heldur árlega námskeið bæði í New York og London.
 
Fraser lauk doktorsgráðu frá RMIT, í Ástralíu 2021.
 
Hönnunardeildin fagnar þessari viðbót við kennaralið sitt og hlakkar til ríkulegs samstarfs við Fraser.