Verkefnið Dómur gegn plasti: ný vídd í list- og hönnunarnámi (e. Plastic Justic: a new dimension in art and design education) hlaut nýlega 197.644 evrur í styrk frá Erasmus+ áætluninni til að rannsaka hvernig grafísk hönnun og sjónrænar samskiptaleiðir geta varpað ljósi á alvarleika mengunar vegna örplasts í umhverfinu. Með verkefninu er kennurum, sérfræðingum, aðgerðasinnum og stefnumótunaraðilum stefnt saman með því markmiði að skapa kennslugögn og aðferðir, samræður og hönnunarefni sem eykur umhverfisvitund og þekkingu nemenda á langtíma heilsuáhrif og áhættum sem fylgja örplastsvandamálinu.
 
Dómur gegn plasti er tveggja ára samstarfsverkefni fimm listaháskóla og ELIA, samstarfsnets listaháskóla í Evrópu, auk samstarfsaðila í ríkisstjórnum og frjálsum félagasamtökum á sviði umhverfismála. Listaháskólarnir eru auk Listaháskóla Íslands, Vilniaus dailės akademija, ELISAVA: Escola Universitária de Barcelona Disseny i Enginyeria, Koninklijke Academie van Beeldende Kunsten Den Haag og University of the Arts London.
 
Listaháskólinn stýrir verkefninu ásamt Koninklijke Academie van Beeldende Kunsten Den Haag.
 
Í verkefninu verða haldin námskeið þar sem nemendur skólanna fá tækifæri til þess að vinna að verkefnum saman í gegnum netið og einnig á tveimur hraðnámskeiðum í Barcelona og Reykjavík. Vinnuhópur akademískra starfsmanna allra samstarfsaðila mun vinna að þróun afurðanna sem kynntar verða í lok verkefnisins með sýningu og á ráðstefnu. Einnig verður haldin málstofa fyrir kennara í Vilnius til að veita þjálfun.
 
Ragnar Freyr Pálsson, dósent í grafískri hönnun og Lóa Auðunsdóttir, lektor í grafískri hönnun verða fulltrúar Listaháskólans í verkefninu ásamt nemendum í grafískri hönnun.
 
 
eu_flag-erasmus_vect_pos.jpg