Frá fagstjóra

Kjarninn í aðferðafræði NAIP-meistaranámsins er samvinna. Þó er það einstaklingsmiðað og nemendamiðað, þannig að hver nemandi móti sinn vettvang í nánum tengslum við samfélagið. Námið undirbýr tónlistarmenn fyrir örar breytingar í starfsumhverfi þeirra, sem í síauknum mæli krefst leiðtoga- og samskiptahæfni og skapandi hugsunar. Áhersla er lögð á að leggja grunn að jákvæðu námsumhverfi sem byggir á trausti og samkennd þar sem þekkingu og reynslu er miðlað á jafningjagrundvelli. Námið er fjölþjóðlegt og er í samvinnu við aðra listaháskóla í Evrópu. Því er ætlað að leiða saman ólíka strauma og stefnur, efla samvinnu milli ólíkra geira tónlistar og mismunandi list- eða starfsgreina. Námið getur verið valkostur til endurmenntunar fyrir tónlistarmenn úr öllum tónlistargeirum sem hafa þegar haslað sér völl.

Öll okkar tækifæri til að blómstra sem listamenn og manneskjur byggjast á samvinnu og samskiptum. NAIP er námsumshverfi sem byggir upp traust þar sem einstaklingarnir í hópnum eru óhræddir við að deila hugmyndum sínum og hugsunum með öðrum, gera tilraunir og fá til baka stuðning, viðbrögð og nýjar hugmyndir. Hvort sem viðfangsefni nemandans er tilraunatónlist, gjörningar, ópera eða barokktónlist þá er jarðvegur sem gerir þátttakendunum kleift að ögra sjálfum sér með stuðningi hópsins, taka áhættu og gera öll þau mistök sem nauðsynlegt er til að ná árangri. Námið byggir upp sjálfsöryggi og sjálfstæði, færni í tónsköpun, samspili og samsöng.

Sigurður Halldórsson