Fyrir hverja er námskeiðið/Námsstig: Námskeiðið er opið bæði arkitektum og hönnuðum sem vilja bæta við sig þekkingu í faginu og öllu áhugafólki um hönnun og arkitektúr. Námskeiðið er á BA stigi.  
 
Í námskeiðinu verður fjallað um alþjóðlega vöruhönnun frá tíma Bauhaus skólans til dagsins í dag. Farið verður í gegnum helstu strauma og stefnur tímabilsins, með áherslu á að tengja verk einstakra hönnuða og hönnunarhópa við þær samfélagslegu aðstæður sem þau spretta upp úr. Fjallað verður um áhrif tækninýjunga, lífsstílsbreytinga, menningarblöndunar, efnahagskreppu og hverskyns samfélagslegs umróts á þróun vöruhönnunar.
 
Námsmat: Skriflegt verkefni og próf
 
Kennari: Tinna Gunnarsdóttir sem hefur verið sjálfstætt starfandi vöruhönnuður frá árinu 1993 nam hönnun í Bretlandi (1988-1992) og á Ítalíu (1997). Hún hefur kennt við Listaháskóla Íslands frá stofnun hans, og var um árabil fagstjóri í vöruhönnun og er núna prófessor við skólann. Árið 2014 lauk Tinna meistaragráðu í rannsóknum með áherslu á vöruhönnun frá University of Brighton en í meistaraverkefni sínu velti hún fyrir sér hvernig hægt sé með inngripi vöruhönnuðarins að auðga upplifun fólks í villtri náttúru með sem minnstri umhverfisröskun.
 
Vöruhönnun er óaðskiljanleg samtímanum og ekki hægt að hugsa sér samfélag mannanna án hennar.  Hönnun í stóra samhenginu er flókið fyrirbrigði og yfirgripsmeira en svo að hægt sé að skilja það til fulls. Vöruhönnun, eins og önnur svið hönnunar, er hreyfiafl, hún á sér sitt sjálfstæða líf, teygir anga sína í allar áttir og ratar inn í ólíklegustu afkima mannlegrar tilveru. Hún leitar stöðugt nýrra leiða, þjónar okkur og ögrar… henni er ekkert óviðkomandi.“ – Tinna
 
Staður og stund: Þverholt 11, þriðjudagar kl. 10.30.- 12.10. 
 
Tímabil: 21. ágúst - 23. október, 2018.
 
Forkröfur: BA gráða í arkitektúr og hönnun eða sambærilegt nám
 
Nánari upplýsingar: Hafdís Harðardóttir, deildarfulltrúi hönnunar- & arkitektúrdeildar: hafdis@lhi.is