Feminísk útópía er ímyndaður staður þar sem ríkir fullkomið jafnrétti og jöfnuður. Þar sem allt það sem okkur dreymir um hefur nú þegar verið náð. Við notum ímyndunaraflið og sköpum og skáldum inn í það rými hvað sem feminísk útópía felur í sér. Hvernig ætli samfélagið væri ef það væri fullkomið jafnrétti? Hvað dreymir okkur um að við höfum náð að áorka? Ímyndunaraflið býður upp á endalausa möguleika. Hvað gerist ef við yfirfærum hluta úr útópíunni og plöntum henni í hversdagsleikann? Hvaða áhrif mun það hafa á hversdagsleikann ef við framkvæmum feminískar, útópískar gjörðir innan hans?

„Ég vil bjóða þér í spjall. Ég vil spjalla við þig um alls konar, mest samt um útópíu, dystópíu og feminisma. Þegar við erum búin að spjalla í nokkra stund langar mig að við finnum gjörð. Gjörð til að gera hversdagsleikann að betri stað. Gjörð sem er þín til að framkvæma. Síðast en ekki síst langar mig að biðja þig um að skrásetja gjörðina svo að ég geti bætt henni við skráasafn um feminíska útópíu. Að lokum vil ég þakka þér fyrir þínar hugmyndir, þína gjörð og þína útópíu.“

Seinustu 10 vikur hef ég, ásamt fjöldanum öllum af allskonar konum verið að rannsaka hugmyndina að feminískri útópíu í hversdagsleikanum. Þetta ferli hefur verið ólíkt öllu sem ég hef áður gert. Þetta ferli hefur verið svo gjöfult og skemmtilegt að ég á stundum erfitt með að ná utan um það. Ég hef eytt mestum tíma ferlisins í að eiga í samtali við konur sem hafa svo í framhaldinu, flest allar fundið gjörð sem þær telja vera tilraun til útópíugerðar og framkvæmt þær. Mig langar að nýta þetta pláss, þetta rými í að þakka öllum þessum konum fyrir spjallið og gjörðirnar. Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir allann þann tíma og lærdóm sem þær hafa gefið mér. Ég er svo þakklát fyrir gjörðirnar þeirra. Ég er svo þakklát fyrir einlægnina. Ég er svo þakklát fyrir tugginn í ykkur. Ég er svo þakklát fyrir hugmyndirnar ykkar. Ég get ekki beðið eftir að setja skráasafnið í loftið til þess að heimurinn fái að vera með mér í þessari aðdáun. Þær hafa sýnt mér hversu máttugt samtal getur verið. Þær hafa gefið mér von um betra samfélag. Þær hafa gefið mér von um mátt einstaklingsins. Að hver og einn einstaklingur hafi áhrif og geti breytt einhverju, hvort það sé með pínulítilli gjörð eða risastórri. Svo eru þær bara svo ótrúlega skemmtilegar og það er búið að vera svo gaman! Elsku kláru konur, hver ein og einasta, takk fyrir ykkur og takk fyrir mig. Án ykkar væri ekkert verk.