Kvika, 1. tbl. 
8. október 2018

 

Skýrsla um ferð kennara og 12 nemenda sviðshöfundabrautar Listaháskóla Íslands til Berlínar veturinn 2018 þar sem ætlunum var að kynnast nýjustu stefnum og straumum innan sviðslista Evrópu og víðar

Höfundur: Karl Ágúst Þorbergsson

Formáli

Á haustdögum 2017 ákvað undirritaður kennari að leggja það til við nemendur sviðshöfundabrautar Listaháskólans að farið yrði seinna um veturinn til Berlínar til að snerta á því helsta sem væri að gerast innan sviðslista og myndlistar. Berlin hefur um langa hríð verið talin einn helsti suðupottur framsækni og tilrauna í listum, ekki síst innan sviðslista alveg frá tímum Piscators og Brecths til Castorfs og Ostermeiers. Undanfarin misseri hafa hins vegar verið sviptingar innan sviðslistasenu Berlínar og hreinlega má segja að ákveðið krísuástand ríki innan hennar í kjölfar þess að Chris Decron tók við hinu framsækna Volksbühne leikhúsi þar sem Frank Castorf hefur ráðið ríkjum síðustu 25 ár. Það var því ákveðið markmið að athuga hvort hægt væri að finna áþreifanlega fyrir þessum skjálfta og velta því fyrir sér hvaða áhrif þessar breytingar hafa á landslag sviðslista í Berlín.

Gert var ráð fyrir að ferðin myndi spanna langa helgi á vorönn, nánar tiltekið frá 23. til 26 febrúar, og yrðu að minnsta kosti farið á fjögur sviðsverk og á þrjú listasöfn. Þegar leið nærri ferðinni kom einnig í ljós að kvikmyndahátíðin Berlinale stóð sem hæst akkúrat þessa helgi og því einnig möguleiki að fara á fjölmargar kvikmyndasýningar þar til viðbótar. Í kjölfarið kom það hins vegar í ljós að Hebbel am Ufer leikhúsið, sem mætti segja að samræmist helst allra leikhúsa í Berlín forsendum sviðshöfundanámsins, var helgað málþingi í tengslum við kvikmyndahátíðina og því engar sýningar þar þessa helgi. Þegar enn nær dró ferðinni virtist framboð á sýningum í leikhúsum borgarinnar ráðast töluvert af því að kvikmyndahátíðin væri í forgrunni menningarlífsins þessa dagana. Áður en haldið var af stað hrikti því örlítið í ímynd Berlínar sem suðupotts tilrauna, framsækni og pönks í listum.

Það er kannski ofsögum sagt að sviðslistasena borgarinnar hafi legið í dvala þessa helgina. Ein fyrsta stóra frumsýning í Volksbühne undir nýrri stjórn Chris Decron var nokkrum dögum fyrir komu okkar og í Berliner Ensamble var stórvirki Victors Hugo, Les Miserables, í leikstjórn Frank Castorfs nýkomið í sýningar. Ljóst var að þarna var ákveðnum hugmyndafræðilegum stefnum tefld saman og því spennandi fyrir okkur að snerta á þeim. Enn fremur var lítil danshátíð í Uferstudios á vegum Tanzfabrik, spennandi verk í bland við eldri standarda í sýningu í Schaubühne og tilraunakennt verk án leikara og leikstjóra í Ballhaus Ost. Hvað varðar myndlistina var stefnan sett á Kunstwerke safnið í Mitte og Hamburger Bahnhof nýlistasafnið að auki smærri gallería þar sem sýningar fjölluðu meðal annars um merkingarbærni miðilsins út frá kenningum Marshall McLuhan og samruna tækninýjunga og myndlistar svo eitthvað sé nefnt.

 

Fögur fyrirheit á föstudegi

Að ferðinni sjálfri. Komið var til Berlínar um hádegi á föstudegi og stefnan sett beint á Kunstwerke í Mitte. Nokkrir nemendur höfðu tekið forskot á sæluna og farið fyrr út, voru því mætt galvösk og meira að segja búin að renna í gegnum sýninguna. Gæta mátti ákveðinnar kaldhæðni í rödd þeirra og orðavali þegar þau lýstu fyrir kennara og öðrum nemendum að sýningin væri frábær þar sem þau sátu í febrúarsólinni og drukku Milchkaffe. Kaldhæðnin átti fullan rétt á sér, sýningin var vissulega ekkert sérstaklega krefjandi og spennandi þó að hún hafi alls ekki verið leiðinleg. Tvær yfirlitssýningar voru í gangi, annars vegar á verkum þýsku myndlistakonunnar Judith Hopf og hins vegar á verkum arkitektadúettsins Trix og Robert Haussmann sem vinna á mörkum arkitektúrs, hönnunar og myndlistar. Verkin á báðum sýningum áttu það sameiginlegt að vinna út frá eins konar brenglun á hversdagslegum hlutum eða framandi notkun á hversdaglegum efnum. Sum verkanna voru glettin og léku sér með skynjun og upplifun áhorfandans en flest þeirra voru einfaldlega óspennandi og skildu lítið eftir sig. Þetta varð til þess að auðvelt var að strauja í gegnum sýninguna og klára hana á innan við klukkutíma.

Um kvöldið voru Vesalingarnir í leiksjórn Castorfs á dagskrá. Töluverð spenna var í kringum þessa sýningu, ekki einungis vegna aðferða, hugmynda og stöðu leikstjórans heldur einnig vegna þess að hún var 6 klukkustunda löng og aðeins eitt hlé. Það verður að teljast ólíklegt að slík sýning myndi falla inn í þá hefð sýninga sem við eigum að venjast hér á landi og því gafst okkur sjaldgæft tækifæri til að upplifa slíka þrekraun, og það á þýsku. Sýningin var sérstaklega áhugaverð þar sem þetta er fyrsta sýning Castorfs í Berlín síðan hann lét af störfum sem leikhússtjóri Volksbühne sumarið 2017. Uppsögn hans og ekki síður ráðning Chris Decron hefur haft gríðarlega mikil áhrif á sviðslistasenu Berlínar og harðar deilur hafa sprottið út frá þessum breytingum. Meðal annars er því haldið fram að ráðning Decron, fyrrverandi stjórnanda myndlistasafnsins Tate Modern í London, sé liður í því að breyta senunni í eins konar póstmóderníska og allt að því neólíberalíska tilraunastofu þar sem sýningar eru keyptar inn út frá stærð nafnanna bak við hana en ekki listrænum gæðum. Einnig er gagnrýnt að með komu Decron og hvarfi Castorfs sé verið að gera aðför að hinni víðfrægu þýsku leikstjórnarhefð og gera út af við hinn fasta leikhóp sem hefur verið eitt aðalsmerki Volksbühne í áraraðir. Castorf hefur að sama skapi verið gagnrýndur fyrir að vera staðnaður og tilheyra sjálfur hinni kapítalísku bylgju þar sem nafn hans er vissulega orðið að gríðarlega öflugu vörumerki sem leikhús, sem keypt hafa sýningar hans, hika ekki við að nýta sér. Deilurnar hafa gengið svo langt að hópur fólks kom sér fyrir í Volksbühne leikhúsinu síðasta haust, tók það hústöku í nokkrar vikur og hélt þar eins konar listahátíð til að undirstrika pönkið sem það stendur fyrir. Castorf var í kjölfarið ráðinn sem einn af leikstjórum gamla leikhúss Brechts við Spree, Berliner Ensamble, og gefið fullt listrænt frelsi til að vinna að sínum hugmyndum og aðferðum. Loft var því lævi blandið þegar við fengum okkur sæti í stúkum hins íburðarmikla, gullhúðaða sýningarsal Das Berliner Ensemble.

Eftir um það bil 10 mínútur var ljóst hvert stefndi. Sýningin var fyrst og fremst minnisvarði um hinn mikilvæga leikstjóra og upphafning á hans stíl og aðferðum en óheyrilega niðurdrepandi, langdregin og klisjukennd. Langir mónólógar miðaldra karlmanna sem stóðu á öskrinu, skýrar en misheppnaðar vísanir í lágmenningu og pönk, konur klæddar eins og vændiskonur sem stóðu þöglar og mystískar og sætar til hliðar á meðan kallarnir öskruðu sig hása í eins konar ranti um sjálfa sig. Leikmyndin var flott. Nokkir nemenda horfðu forviða í kringum sig, nokkrir lögðu sig í stúkunum og flest vorum við farin út eftir rúman klukkutíma. Tveir nemendur þraukuðu alla sex klukkutímana og voru nokkuð keikir eftirá enda ekki lítil þolraun að stara á steingeldan hrút í fjórðung úr sólarhring. Ádeila Castorfs á neysluhyggjuna og kapítalismann hafi ekki meiri áhrif en svo að sum okkar sáu sig tilneydd til að fara beinustu leið inn í næstu H&M og Zöru og eyða þar því klinki sem eftir var af námslánum febrúarmánaðar. Undirritaður ákvað að nýta tækifærið og ná annarri sýningu á litlu sviði í Volksbühne seinna um kvöldið enda engu að tapa, varla var hægt að komast neðar í listrænu metnaðarleysi og stöðnun en í Vesalingunum.

Kynningartexti sýningarinnar Health and Safety lofaði góðu. Hópur listamanna sem vann þvert á miðla út frá hugmynd um lífið í Berlín á tímum sívaxandi ágangs innlendra og erlendra fjárfesta og nýríkrar, vestrænnar, efri millistéttar sem vilja græða á fjölbreyttri grasrótarstemmningu borgarinnar. Orðið „gentrifizierung“ kom oft fyrir í stuttri lýsingunni og vísað í spennandi heimspeki- og félagsfræðikenningar samtímans til að ýta undir samfélagslegt mikilvægi verksins. Þar að auki hlyti hópurinn að vera hluti af nýrri nálgun hins nýja leikhússtjóra Chris Decron. Þetta hljómaði vægast sagt mjög spennandi í eyrum kennarans.

En Adam var ekki lengi í paradís. Sýningin var hreint út sagt hörmuleg. Vissulega var verið að vinna með samfélagsleg vandamál borgarlífsins en meðhöndlum hópsins á efniviðnum var mjög grunnhyggin og lítið unnin, lítið sem ekkert var komið inn á heimspekina eða félagsfræðina öðruvísi en þylja upp klisjukenndar formúlur um nýfrjálshyggju og vandamálin við að búa við kerfi sem maður virðist ekki geta haft nein áhrif á. Samkvæmt kynningu átti form sýningarinnar að teljast með eindæmum nýstárlegt en erfitt var að greina í hverju sú nýjungagirni fælist, þvert á móti var formið meira í ætt við viðvaningslega og staðnaða útgáfu af révíu. Reyndar var allt yfirbragð sýningarinnar afar viðvaningslegt og líklega má kenna því um að aðstandendur sýningarinnar, sem komu úr ólíkum listmiðlum, hafi ekki nýtt sér sérþekkingu sína og kunnáttu til að vinna inn í sviðlistaformið heldur gengið beint inn í ímyndir og klisjur leiklistarinnar. Ef þessi sýning ætti að endurspegla á einhvern hátt hugmyndafræðilega nálgun Chris Decron þá var mjög auðvelt að skilja þær gagnrýnisraddir sem sökuðu hann um yfirborðskennda og söluvænlega nálgun.

Eftir þennan fyrsta dag var óhætt að segja að ferðalangarnir báru í brjósti sér blendnar tilfinningar, fullir efasemda um pönkið í sviðslistasenu Berlínar. Þeir nemendur sem höfðu farið fyrr ytra höfðu séð nokkrar sýningar til viðbótar og sá vitnisburður sem þær fengu var á sama veg og Vesalingarnir og Health and Safety. Undirritaður var hreinlega farinn að efast um gildi þessarar menningarferðar. En daginn eftir var ferðinni heitið á nýlistasafnið Hamburger Bahnhof og þar myndi trú okkar á kraftbirtingarhjóm listarinnar endurnýjast.

 

Rothöggið

Febrúarsólin yljaði okkur þar sem við gengum galvösk inn í forgarð gömlu lestarstöðvarinnar sem hýsir nú eitt framsæknasta stóra nútímalistasafn Evrópu. Þarna var gert ráð fyrir að eyða eftirmiðdeginum ráfandi um víðfem salarkynni og endalausa ranghala safnsins. Sú plön fóru út um þúfur þegar okkur varð ljóst að akkúrat þessa helgi var verið að skipta um sýningar í 90% salanna og einingis opið á fasta sýningu á verkum meistara nútímalistarinnar, litla sýningu á verkum Joseph Beyus og í einn lítinn sýningarsal með verkum í þemanu ,,litlir skúlptúrar“. Vonbrigði gærdagsins virtust ætla að halda áfram og lítið fór fyrir framúrstefnu og pönki heldur voru þekkt stef innan nútímaklassíkur áberandi. Það tók tæpan klukkutíma að grandskoða þessar sýningar. Vissulega voru verkin mörg hver tilkomumikil og merkileg og gaman að standa andspænis sögufrægum verkum eftir Warhol, Beyus, Rothko, Rot og Klein og fleiri. En þegar við vorum um það bil að klára að skoða sýningarnar runnu á okkur tvær grímur. Hvar voru konurnar? Fljótt á litið virtust fá verkanna vera eftir kvenkyns listamenn og við trúðum því varla að safn eins og Hamburger Bahnhof myndi sniðganga konur innan nútímalistar. Við gengum því í gegnum allt safnið aftur til þess að leiðrétta þennan lestur. Niðurstaðan var sú að á föstu sýningunni sem sýnir brot af því besta í nútímalist frá árinu 1950 til 1990 var ekki eitt einasta verk eftir konu. Ekki eitt. Af meira en hundrað. Ef hinar tvær sýningarnar, um valin verk eftir Joseph Beyus og úrval lítilli skúlptúra, voru teknar með voru verk eftir kvenkyns listamenn teljandi á fingrum annarrar handar.

Rothögg. Á þessum tímapunkti í ferðinni upplifðu bæði kennari og nemendur fullkomna bugun. Ekki nóg með það að leiklistarsenan í Berlín virtist heltekin af deilum um mikilvægi tveggja hvítra karla og sjálfhverfu þeirra þá virtist myndlistin endurspegla fullkomið meðvitundarleysi um eigin söguskoðun og jaðarsetningu. Framsækni og gagnrýna hugsun var augljóslega ekki að finna í leiklist eða myndlist heldur virtist helsta keppikeflið vera að reisa minnisvarð hins hvíta, evrósentríska og sjálfhverfa karlmanns. Við gáfumst því upp á þessum stöðnuðu listformum og fórum í bíó.

 

Guði sé lof fyrir bíó!

Kvikmyndahatíðin Berlinale er ein af stóru kvikmyndahátíðunum, með hátíðunum í Cannes, Feneyjum og Tórantó. Mikil fjöldi fólks leggur leið sína á hátíðina og myndirnar eru mjög fjölbreyttar, bæði hvað varðar form og innihald. Til þess að fá sem mest fyrir peninginn var ákveðið að fara að sjá stuttmyndaprógramm þar sem sýndar voru 10 stuttmyndir sem fjölluðu á einhvern hátt um ungt fólk. Þetta hentaði vel því seinna um kvöldið var stefnan sett á að fara á leiksýningu í Ballhaus Ost. Eftir fyrri hrakfarir vorum við hins vegar mjög opin fyrir því að fara frekar aftur í bíó en að hætta okkur inn á aðra leiksýningu. Undirritaður hefði reyndar alveg verið mjög sáttur við það að fara bara í dýragarðinn restina af ferðinni ef bíóið myndi ekki endurvekja trú hans á möguleikum listarinnar til að takast á við samfélagið með snefil af meðvitund og nýjungagirni.

Guði sé lof fyrir bíó! Á einum og hálfum sólarhring tókst okkur að sjá hátt í 30 stuttmyndir á Berlinale. Langflestar þeirra tókust á við krefjandi samfélagsleg málefni á mjög áhrifaríkan hátt og margar þeirra blönduðu saman frásagnarmöguleikum formsins og spennandi tilraunum. Margar fjölluðu annað hvort um stöðu og jaðarsetningu minnihluta eða svefndrukkið meðvitundarleysi vestrænna samfélaga samtímans. Myndirnar kveiktu á okkur, spurðu spurninga, kröfðu okkur um afstöðu, voru ágengar, ýttu við hugmyndum okkar um möguleika listarinnar, voru fyndnar og skrítnar, glöddu okkur, vöktu okkur. Við sáum heimildarmyndina JUCK sem fjallaði um ungar sænskar konur sem berjast fyrir kynfrelsi sínu og réttindum með starandi agressivu augnarráði og kröftugum mjaðmahnykkjum, mynd um líf hreyfihamlaðrar konu sem barðist fyrir því að fá að stunda BDSM kynlíf, sögu bræðra á flótta undan stríði, mynd um samkynhneigða konu í Lebanon tekna í einu skoti í parísarhjóli, aðra heimildarmynd sem fjallaði um tindersamskipti yfir múrinn milli Ísrael og Palestínu, tvær mjög tilraunkenndar og abstrakt teiknimyndir, mynd um líf fólks í þýskum smábæ í afrískri eyðimörk sem öll var tekin í ,,greenscreen“ og svo mætti lengi telja. Að baki myndunum var ljóst að höfundarnir höfðu drífandi þörf til að segja okkur sögu, að varpa ljósi á aðstæður okkar og umhverfi og setja fram spurningar um þau gildi sem við byggjum samfélagsgerð okkar á.

Þessi augljósi drifkraftur kvikmyndanna vakti upp vangaveltur um möguleika sviðslistarinnar til að takast á við knýjandi spurningar samtímans. Hvaða möguleika býður hefðbundin

nálgun á valdstrúktur leiklistarinnar (leikskáld>leikstjóri>leikari) til að takast á við þau samfélagslegu átök sem eiga sér stað núna, hvort sem um ræðir síaukna pólaríseringu og gerræðislega tilburði öfgamanna eða femíniskar byltingar á borð við #metoo? Getum við tekist á við gagnrýni á íhaldsaman strúktur samfélagsins með íhaldsömum strúktur leiklistarinnar? Er skárra ef leikhúsin framleiða ekki minnisvarðana sjálf heldur kaupi inn það sem þau vita að muni selja miða, og sleppa þar með við borga framleiðslukostnaðinn um leið og þau búa til risastór vörumerki úr listamönnunum? Eða þurfum við að finna nýjar eða aðrar leiðir til að takast á við þær gríðarlegur samfélagsbreytingar sem eru að eiga sér stað? Leiðarstef sviðslista í gegnum árþúsundin hefur verið að þær séu spegill samfélagsins. Spegillinn hlýtur að ná yfir annað og meira en það sem fram kemur í sögunni sem sögð er, valdastrúktur listarinnar hlýtur að endurspegla valdastrúktur samfélagsins. Því hljótum við, sem störfum innan geirans, að þurfa að staldra við þegar hrykktir eins hressilega í formgerð samfélagsins eins og núna. Við hljótum að þurfa að spyrja okkur erfiðra spurninga um hvaða sögur við segjum og ekki síst hvernig við segjum þær og hvernig þær verða til. Höfum við rými og tíma til að dvelja við þessar spurningar og takast á við þær? Rými til að leita að möguleikum án þess að koma með eitt rétt svar?

„Die Volksbühne Situation“ endurspeglar þetta vandamál ágætlega. Það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi en risastóru og hjákátlegu rifrildi um mikilvægi hins mikla, hvíta, karlkyns leikstjóra og íhaldsama stöðu hans innan hins þýska menningarheims. Réttinn til að búa til lifandi minnisvarða úr sjálfum sér. Hvergi hefur verið farið ofan í saumana á því hvaða samfélagsgerð þetta endurspeglar enda læðist sá grunur að manni að sú hugmynd sé einfaldlega ekki inn í hugarheimi þeirra sem leiða umræðuna. Leikkona sem býr og starfar í Berlín benti á að #metoo hefði nánast ekki borið á góma í þýskum leikhúsum ólíkt til dæmis þeirri byltingu sem það hefur valdið á Norðurlöndunum og á Íslandi. Ólíklegt er að sýningarstjórar Hamburger Bahnhof hafi áttað sig á jaðarsetningu kvenna í fastri sýningu á safneigninni. Þar er ekki verið að sýna kyn heldur list, væru rök sem auðvelt væri fyrir þá að grípa í ef upp kæmi gagnrýni sem þyrfti að svara. Fyrir rúmum 25 árum átti sér stað bylting innan þýska leiklistarheimsins með tilkomu manna á borð við Frank Castorf, René Pollesch og Thomas Ostermeier og fleiri. Þeir börðust gegn íhaldsömum og stöðnuðum viðhorfum forvera sinna. „Die Volksbühne Situation“ sýnir okkur svart á hvítu að þeir sjálfir eru nú orðnir staðnaðir talsmenn hins íhaldsama. Það er búið að reka Chris Decron eftir rétt tæplega hálft ár í starfi og nánast tveggja ára langt rifrildi. Og fyrst núna í apríl síðastliðnum birtist grein í Die Welt þar sem umræðan virðist vera að færast frá sjálfhverfu hins hvíta karlmanns yfir í víðara og mikilvægara samhengi þar sem velt er upp spurningum um gildi og áhrif hins ráðandi valdastrúkturs.

 

Leiklistin er dauð! Lengi lifi leiklistin!

Ákveðið var að gefa sviðslistasenunni í Berlín eitt tækifæri í viðbót og fara sýninguna Der Staat (Ríkið) eftir Alexander Manuiloff í Ballhaus Ost. Það var kannski fyrst og fremst ein setning í kynningartextanum sem ýtti við okkur, þ.e. tekið var fram að það væri hvorki leikstjóri né leikarar í sýningunni. Þegar gengið var í salinn voru sæti fyrir áhorfendur í hring upp við vegginn á sviðinu sjálfu og í miðjunni var borð með litlum kassa. Ofan á kassanum var eitt umslag. Ljós út á áhorfendur og borðið lýstist upp. Ekkert gerðist. Dágóð stund leið með ræskingum, hummi og kæfðum hlátri þar til einn áhorfandi stóðst ekki mátið og gekk að borðinu, opnaði umslagið og las: Sýningin byrjar eftir 5 mínútur. Aftur leið dágóð stund þar til annar áhorfandi gafst upp, gekk að borðinu og opnaði kassann. Í ljós kom að hann var

fullur af umslögum og þá áttuðu áhorfendur sig á leiknum: Við áttum að lesa okkur í gegnum bréfin og þannig halda frásögninni og verkinu lifandi. Bréfin afhjúpuð sögu manns, Plamen Goranov sem brenndi sig til dauða árið 2013 til að mótmæla grófri spillingu og aðför að lýðræði og mannréttindum í Búlgaríu. Bréfin voru skrifuð sem eins konar hugleiðingar Plamens um aðstæður sínar og þróun lýðræðis í Búlgaríu en inn á milli komu bréf sem spurðu spurninga um möguleika leiksýningarinnar sem listforms. Á einstaklega einfaldan hátt varð sýningin sjálf að eins konar leikvelli um samfélagsleg gildi, um samskipti, traust og lýðræði. Þó að sagan sjálf væri mjög átakanleg gáfu áhorfendur sér samt leyfi til að kanna mörk sýningarinnar. Einn sýningargestur reif bréf eftir að hafa lesið það í hljóði fyrir sjálfan sig, annar hljóp út með eitt en var stöðvaður af öðrum gesti sem síðan las bréfið, enn annar reyndi að kveikja í bréfunum. Úr varð eins konar samtal um samfélagið í gegnum þessar tilraunir til að kanna mörk formsins, samtal sem um leið endurspeglaði krefjandi umfjöllunarefni sögu Plamens. Að sama skapi miðlaði sýningin vel hugmynd um traust, þar sem höfundur sýningarinnar „gaf“ áhorfendum vald yfir verkinu, treysti þeim fyrir því. Hver sýning er því háð því samtali sem á sér stað milli áhorfenda í hvert skipti. Kvöldið áður hafði t.d. einn gestur kveikt í öllum bréfunum í kassanum stuttu eftir að sýningin hófst og þar með var sýningin einfaldlega búin. Í okkar tilfelli endaði sýningin á því að einn gestur sýningarinnar las titrandi röddu niðurlag síðasta bréfsins þar sem áhorfendum er tilkynnt um að nú sé sýningin búin og þeir megi klappa. En gesturinn hélt áfram og hrópaði í örvæntingu: „Er þetta það eina sem við getum gert? Klappað?! Getum við í alvöru ekkert annað gert en að klappa?!“ Og síðan grýtti hún vínglasinu sínu í borðið þannig að það splundraðist og glerbrotin flugu um allann salinn, gekk aftur í sætið og sat þar í geðshræringu. Ljós upp.

Sýningin vakti aftur trú á möguleikum sviðslistanna. Ólíkt þeim sýningum sem við höfðum hingað til séð var hún opin en ekki lokuð og hún krafði okkur ekki bara um virka þáttöku heldur um afstöðu, eða öllu heldur um sameiginlega leit að afstöðu. Hér var enginn snillingur að þvælast fyrir sjálfum sér og verkinu heldur fengum við að takast á við samfélagið okkar á virkan hátt. Hér var heldur ekki á ferðinni nein upphafin ímynd hins pönkaða Berlínarleikhúss heldur mætti verkið okkur út frá trausti og drífandi þörf til að fá okkur áhorfendur til að takast á við samfélagið. Áhorfendum var í orðsins fyllt merkingu gefið rými og tími til að ávarpa spurningar um gildi samfélagsins í gegnum tilraunir með form listmiðilsins.

 

Sunnudagurinn

Ferðinni var þó samt sem áður engan veginn lokið, það var heill sunnudagur eftir. Það má samt sem áður segja að línurnar hafi skýrst töluvert og sömuleiðis afstaða ferðalanga til möguleika frásagnaraðferða sviðslistanna. Á sunnudeginum tvístraðist hópurinn eilítið. Flest öll fórum við á fleiri stuttmyndir. Sumir fóru í hið margfræga leikhús Vestur – Berlínar, Schaubühne, á mjög myndræna og draumkennda sýningu og af lýsingum að dæmi verður sú sýning að teljast frekar óhefðbundin miðað við þann krítíska kapítalíska-realisma sem þar ræður ríkjum. Undirritaður gat ekki sleppt því að sjá fyrstu stóru sýningu Volksbühne undir stjórn Decron, sýninguna Liberté í leikstjórn Albert Serra. Nokkrir nemendur höfðu farið á frumsýninguna í vikunni á undan og ekki beinlínis látið vel af, ef frá er skilin upplifun þeirra af bauli og framíköllum í bland við húrrahróp og suss á meðan sýningunni stóð. Ljóst var að stuðningsfólk bæði Castorf og Decron höfðu mætt og látið skoðun sína í ljós. Undirritaður verður hins vegar að vera nokkuð ósammála nemendum og taldi sýninguna alls ekki svo slæma. Hún var vissulega mjög hæg og orkan mjög lágstemmd og lítið sem ekkert virtist vera

að gerast. Sýningin fjallaði enda um leynimakk 18. aldar hefðarfólks, sérstaklega kvenna, á flótta frá ofsóknum í Frakklandi. Þær brugðu fæti fyrir kirkjunnar mönnum og um leið komu sér í mjúkinn hjá þýskum kollegum sínum í von um skjól. Þar af leiðandi var allur texti meira eða minna undir rós og ekki var anað að neinu. Og auðvitað gerðist frásögnin út í sveit að nóttu til og því mikið myrkur, svona til að auka á leynamakksstemmninguna. Og allir leikararnir hvísluðu eiginlega en voru þó með míkrafóna. En ef sýningunni væri stillt upp á móti Vesalingum Castorfs þá var augljóslega verið að gera einhverslags tilraunir með nálgun og frásagnaraðferð miðilsins hjá Serra. Það var verið að vinna markvisst í því að draga mann inn í stemmninguna í stað þess að ýta manni frá. En sýningin var þó aldrei að fara að vera nein bomba. Enda var henni slátrað í flestum dómum þó að ljóst væri að sumir gagnrýnendur virtust eiga erfitt með að skilja að sýninguna sjálfa og deilurnar um Volksbühne. Og stuttu seinna var Decron einfaldlega rekinn eins og sagt er hér ofar.

 

Niðurlag

Menningarferð okkar til Berlínar var vissulega vel heppnuð en kannski á þann hátt sem við gátum ómögulega séð fyrir. Við gáfumst upp á sjálfhverfu sviðslistasnillinga og tilgerðarlegum minnisvörðum myndlistarinnar en fundum trúna aftur þökk sé stuttmyndum á Berlinale og trausti til áhorfenda á Der Staat í Ballhaus Ost. Við fengum að kynnast því frá fyrstu hendi hvað miðillinn þarf að vera á sífelldri hreyfingu og að við, sviðslistafólk, séum opin fyrir leitinni og óvissunni. Án hennar eigum við það á hættu að missa einfaldlega tengslin við hið mikilvæga samfélagslega samhengi verka okkar og um leið verða upptekin af menningarlegu gildi okkar sjálfs.

Þá verðum við bara innihaldslausir minnisvarðar.