Kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi (hér á eftir nefnd brot) er með öllu óheimil af hálfu starfsfólks og nemenda Listaháskóla Íslands (LHÍ) og fortakslaust bönnuð í allri starfsemi skólans. Áreitni og ofbeldi verður hvorki þaggað niður né umborið undir neinum kringumstæðum.

Markmið

Markmið þessarar áætlunar er að tryggja að úrræði séu til staðar fyrir aðila sem telja sig hafa orðið fyrir því að á þeim sé brotið.

Tilgreind brot eru hvorki liðin í samskiptum starfsfólks og nemenda, meðal starfsfólks eða nemenda innbyrðis, né heldur í samskiptum starfsmanna eða nemenda LHÍ við einstaklinga utan Listaháskólans enda eigi samskiptin sér stað í tengslum við starfsemi LHÍ.

Skilgreiningar

Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni eða kyngervi þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn, stafræn og/eða líkamleg.

Kynbundið ofbeldi er ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þolenda. Einnig teljast hótanir um slíkt ofbeldi, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis á grundvelli kynferðis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi, til kynbundins ofbeldis.

Kynferðislegt ofbeldi er brot sem lýst er refsivert í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Viðbragðsteymi

Framkvæmdaráð skipar aðila teymisins. Í viðbragðsteymi sitja þrír aðilar sem hafa þekkingu og reynslu af meðferð slíkra mála, tveir fulltrúar LHÍ auk eins utanaðkomandi fagaðila. Annar fulltrúi LHÍ er jafnframt formaður teymisins. Fulltrúar LHÍ eru Björg Jóna Birgisdóttir, námsráðgjafi og trúnaðarmaður nemenda og Sóley Björt Guðmundsdóttir mannauðsstjóri. Björg Jóna er formaður teymisins.

Komi upp vafi á hæfi nefndarmanna í einstaka málum skal viðkomandi aðili víkja sæti og annar skipaður í hans stað. Farið skal eftir reglum stjórnsýslulaga varðandi hæfi. Við skipan skal leitast við að hafa jöfn kynjahlutföll. Aðilum teymisins er skylt að gæta trúnaðar um öll mál sem til þess berast. Mannauðsstjóri LHÍ skal halda tölfræðilegar upplýsingar um störf teymisins.

Tilkynningar

Telji einhver að brotið hafi verið á sér af hálfu starfsmanns eða nemanda LHÍ, er viðkomandi eindregið hvattur til að snúa sér með tilkynningu um brot til Bjargar Jónu, formanns viðbragðsteymis, á netfangið bjorg [at] lhi.is.

Einnig getur viðkomandi snúið sér til hvers þess innan skólans sem hann ber traust til. Hafi einhver starfsmaður eða nemandi innan LHÍ rökstuddan grun eða vitneskju um brot á öðrum einstaklingi af hálfu starfsmanns eða nemanda LHÍ, skal viðkomandi snúa sér með tilkynningu um brot til formanns viðbragðsteymis eða til aðila innan skólans sem hann ber traust til. Hver sá sem tekur við tilkynningu skal umsvifalaust vísa erindinu til formanns viðbragðsteymisins sem tekur málið til faglegs mats.

Öllum aðilum, sem berast tilkynningar samkvæmt framangreindu, er skylt að gæta trúnaðar um efni slíkra tilkynninga.

Málsmeðferð

Teymið skal rannsaka mál sem til þess berast, gæta jafnræðis og meðalhófs og skila af sér niðurstöðu svo fljótt sem verða má. Þær aðgerðir sem gripið er til í ferli máls eru í samráði við þann aðila sem brotið er gegn skv. tilkynningu.

Viðbragðsteymið tekur við tilkynningum um brot af hálfu starfsfólks eða nemenda LHÍ, rannsakar brot og leggur til aðgerðir eftir því sem við á.

Við tilkynningu skal teymið bjóða þeim sem tilkynnir brotið á fund teymisins. Berist tilkynning frá öðrum aðila en þeim sem brotið er gegn skal ráðið bjóða þeim aðila sem talið er að brotið var gegn á fund og kanna afstöðu þess aðila til tilkynningarinnar.

Sá sem brotaþoli hefur tilgreint sem geranda málsins skal kallaður á fund teymisins og afstaða hans könnuð. Skal viðkomandi sérstaklega gerð grein fyrir rétti sínum til að andmæla framkomnum ásökunum og gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Viðbragðsteymið tekur upplýsta ákvörðun með hliðsjón af framkomnum upplýsingum um hvort að málið verði tekið til formlegrar meðferðar. Ef rökstuddur grunur er fyrir hendi um að refsivert brot hafi verið framið skal teymið, í samráði við brotaþola, vísa slíkum málum til lögreglu. Ef ákveðið er að vísa máli til lögreglu skal teymið vísa málinu til mannauðsstjóra til aðgerða gagnvart kærða en ekki aðhafast frekar í málinu.

Verði málið tekið til formlegrar meðferðar hjá teyminu skal stjórnanda viðkomandi deildar/sviðs tilkynnt um ákvörðun teymisins og skulu þeir grípa til ráðstafana varðandi náms- eða starfstilhögun þeirra sem að málinu koma. Óheimilt er að flytja þann aðila sem telst þolandi málsins til í námi/starfi nema viðkomandi óski þess.

Til formlegrar meðferðar telst að málið sé kannað til hlítar með samtölum við alla aðila þess, samstarfsfólk, samnemendur og/eða aðra sem til málsins þekkja að einhverju leiti. Viðbragðsteymið skal eiga óheftan aðgang að gögnum sem tilkynninguna varða. Þeim sem talið er að brotið sé gegn skal boðin aðstoð meðferðaraðila með sérþekkingu á umræddum brotum. Vilji brotaþoli kæra málið til lögreglu skal teymið vera til aðstoðar við það eins og við verður komið. Ef brotaþoli ákveður á einhverju stigi málsins að kæra það til lögreglu, skal teymið ekki aðhafast frekar í málinu.

Teymið tilkynnir stjórnanda viðkomandi deildar/sviðs og rektor um niðurstöðu sína með skriflegum hætti. Telji teymið að um brot hafi verið að ræða skal það leggja fram tillögu að viðbrögðum til viðkomandi stjórnanda viðkomandi deildar/sviðs og rektors sem í samráði við mannauðsstjóra og/eða námsráðgjafa skulu taka ákvarðanir um frekari aðgerðir í málinu. Ákvarðanir um frekari aðgerðir í framhaldi af tillögum teymisins skulu teknar í samræmi þau lög og reglur sem gilda um starfsemi LHÍ. Rektor skal halda teyminu upplýstu um þær aðgerðir sem framkvæmdar eru. Öll gögn sem unnin eru í málinu skulu varðveitt í skjalasafni LHÍ, fyllsta trúnaðar skal gætt gagnvart aðilum málsins og skal afmá allar persónugreinanlegar upplýsingar um þolanda, s.s. nafn, aldur og námssvið, úr gögnunum.

Viðurlög

Viðurlög við brotum kunna að vera:

  • Áminning
  • Tímabundin brottvikning verði ekki brugðist við áminningu
  • Varanleg brottvikning verði ekki brugðist við áminningu
  • Fyrirvaralaus tímabundin eða varanleg brottvikning.

Viðbrögð við brotum eru ákveðin af rektor og stjórnanda viðkomandi deildar/sviðs sem heimild hafa til að veita nemanda/starfsmanni áminningu eða víkja úr námi eða starfi.