Myndlist á Íslandi fagnaði útgáfu fyrsta tölublaðs á sýningarstaðnum Open, Grandagarði 27, sunnudaginn 7. mars síðastliðinn. Í tímaritinu eru fjölmargar greinar og umfjallanir, um sýningar og viðburði á undangengnu ári, viðtöl við listamenn, viðtöl við listamenn, úttekt á áhrifum heimsfaraldurs á myndlistarsenuna, verk eftir listamenn og samtal við mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur. Staðan er tekin á leikgleðinni í íslenskri myndlist, rætt um stöðu minnihlutahópa innan myndlistarsenunnar, grafið í sögubókunum og tvíhyggjunni ögrað.  Ritið verður fáanlegt í öllum helstu bóka- og safnbúðum landsins, ásamt því að vera dreift til lista- og menningarstofnana á erlendri grundu, en blaðið er bæði á íslensku og ensku.
 
 „Við erum afskaplega stolt af þessari útgáfu. Okkar von er að blaðið festi sig í sessi sem miðja myndlistarumfjöllunar hér á landi, og stuðli þar með að framþróun og auknu samtali innan myndlistarsenunnar.“
- Ritstjórn Myndlistar á Íslandi
 
 
Myndlist á Íslandi er nýtt tímarit um íslenska myndlist. Markmiðið er að skapa öfluga miðju fyrir myndlistaumfjöllun og vettvang fyrir líflega umræðu um myndlist hér á landi. Tímaritið er samstarfsverkefni myndlistardeildar Listaháskóla Íslands, Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM), Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar (KÍM), Listfræðafélags Íslands og Myndlistarráðs. Starkaður Sigurðarson er ritstjóri, með honum í ritnefnd sitja Katrín Helena Jónsdóttir og Sunna Ástþórsdóttir.
 
Á haustmánuðum 2020 hóf ritstjórn myndlistartímaritsins Störu (fagblað Sambands íslenskra myndlistarmanna) viðræður við SÍM, KÍM, Myndlistarráð, myndlistardeild LHÍ og Listfræðafélag Íslands um fæðingu nýs myndlistartímarits. Markmiðið var að byggja á þeim góða grunni sem Stara hefur skapað, en með stuðning víðar að yrði hægt að skapa ennþá öflugri vettvang fyrir umræðu og greiningu á myndlist á Íslandi, breikka lesendahópinn og færa kvíarnar út í heim. Úr varð tímaritið Myndlist á Íslandi, veglegur prentgripur, sem kemur út í fyrsta sinn 7. mars næstkomandi.
 
 
myndlistaislandi.jpg
 

 

Í 1. tölublaði:
Í blaðinu er að finna efni sem ritstjórn kallaði eftir, efni sem aðrir hafa óskað eftir að skrifa fyrir blaðið og efni unnið af ritstjórn og þeim aðilum sem sitja í stjórn blaðsins. Sigrún Hrólfsdóttir, deildarforseti myndlistardeildar birtir ítarlegt og nytsamlegt yfirlit yfir starfsemi deildarinnar í blaðinu, í því má finna umfjöllun um RÝMD, nemendagallerí myndlistardeild. Páll Haukur Björnsson, aðjúnkt við myndlistardeildar, skrifar um yfirlitssýningu Ástu Ólafsdóttur og hvernig hún ögraði tvíhyggjunni.
    Í blaðinu má einnig lesa viðtal sem Daría Sól Andrews tók við listhópinn Lucky 3 þar sem þau ræða myndlist og stöðu minnihlutahópa á Íslandi innan sem utan listaheimsins. Þá má lesa viðtal við Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur þar sem hún ræðir meðal annars viðbrögð ráðuneytisins við kórónuveirufaldrinum. Myndlistarverðlaunin fóru fram í fjórða sinn í febrúar og birtast tilnefningar og umsagnir um verðlaunahafa í þessu fyrsta tölublaði. Margrét Elísabet Ólafsdóttir skrifar fyrir hönd Listfræðafélags Íslands um listfræðinginn Þóru Kristjánsdóttur sem meðal annars tók þátt í mótun Listasafns Reykjavíkur, en lítið hefur farið fyrir í sögubókunum. Claire Paugam skrifar um leikgleðina í íslenskri myndlist, og Brynjar Jóhannesson skrifar um Plan-B hátíðina í Borgarfirði. Þar fyrir utan birtast verk fjögurra listamanna í pappírsgalleríi blaðsins. Hönnun blaðsins er í höndum Petter Spilde (PSSÁ).
 
 
Þeir sem hafa áhuga á að festa kaup á blaðinu geta haft samband við ritjstórn með því að senda tölvupóst á netfangið myndlistaislandi [at] gmail.com

,
blaðið fer svo í sölu í helstu bókabúðum og safnbúðum á næstu vikum.
 
ritstjorn.jpg
Ritstjórn Myndlistar á Íslandi f.v.: Sunna Ástþórsdóttir, Starkaður Sigurðarson (ritstjóri), Katrín Helena Jónsdóttir