Viktor Weisshappel valinn bjartasta vonin og Margrét Aðalheiður þátttakandi High Potentials

Viktor Weisshappel Vilhjálmsson og Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir útskrifuðust bæði úr grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, Viktor árið 2015 en Margrét nú í vor 2019. Viktor var á dögunum valinn bjartasta von Evrópu (e. Young Creative Europian of the Year) á verðlaunum Arts Directors Club of Europe í Barcelona, fyrir verkefni sitt Útmeða, en verkefnið vann líka silfur í flokknum grafísk hönnun. Margrét Aðalheiður, sem er nú í framhaldsnámi í Stokkhólmi var valin til að taka þátt í verkefninu High Potentials á sömu hátíð en þar fékk hún tækifæri til að kynna verkefni sín fyrir stærstu auglýsingastofum Evrópu.
 
Útmeða
Verkefni Viktors, Útmeða, var unnið í samstarfi við Rauða Kross Íslands og Landssamtökin Geðhjálp. Með verkefninu tók Viktor fyrir tilfinningar og/eða andlegt ástand sem fólk á það til að fela og útbjó 11 bætur sem hægt er að sauma á föt og bera þannig utan á sér. Kvíði, reiði, feimni, einmanaleiki, sorg, ADHD, félagsfælni, ranghugmyndir, stress, vonleysi, þunglyndi og meðvirkni eru þannig orðin að fylgihlutum sem óþarfi er að skammast sín fyrir, hægt er að kaupa eins margar bætur og maður vill og nota þær hvernig sem er. Ýmsir Íslendingar sátu fyrir í peysum sem búið var að sauma bætur á, en hægt er að skoða ljósmyndir frá verkefninu á heimasíðu Viktors hérna.
 
High Potentials
Magrét Aðalheiður tók þátt í High Potentials og kynnti verk sín fyrir stærstu auglýsingastofum Evrópu. Útskrifarverkefni hennar frá Listaháskóla Íslands bara titilinn Vanitas en þar skoðar Margrét hégóma frá ýmsum sjónarhornum, hægt er að skoða verkefni hennar hér.
 
Félag íslenskra teiknara er aðili að ADC*E og heldur utan um þátttöku Íslands í keppninni. Verðlaunin endurspegla allt það besta í grafískri hönnun á hverjum tíma en verðlaunaverk hvers lands eru send í keppnina sem eru svo dæmd af 60 fagaðilum alls staðar að úr Evrópu. Því er óhætt að segja að velgengni ungra íslenskra hönnuða á þessari stóru hátíð er aðdáunarverð og óskar Listaháskóli Íslands Viktori og Margréti hjartanlega til hamingju með árangurinn!