Listaháskólinn tekur þátt í Vísindavöku Rannís sem fram fer 28. september kl. 16:30 - 22:00 í Laugardalshöllinni. 

Allar deildir LHÍ tefla fram verkefnum og rannsóknum sem kynntar verða á vísindavökunni. 

Vöruhönnun: Borðið þessa flösku! 
Agari er flaska sem búin er til úr vatni og agar, sem unnið er úr rauðþörungum. Um leið og búið er að tæma flöskuna af vatni brotnar efni hennar niður. Hér er kynnt tilraun Ara Jónssonar, vöruhönnuðar, til að stemma stigu við stærsta umhverfisvandamáli samtímans, plastmengun. Hvetur hann fólk til að stela hugmyndinni!  
 
LHÍ myndlist: Tilraun um torf.  
,,Tilraun um torf“ er tilraunaverkefni Ólafar Nordal myndlistarmanns þar sem hið ævagamla byggingarefni mýrartorf, er skoðað út frá forsendum myndlistar.
 

LHÍ tónlist: Hljóðfærin Hulda og Lokkur.

Hljóð- og ljósskúlptúrinn Hulda er strengjahljóðfæri með innbyggðum ljósabúnaði sem stýrist af því hvernig spilað er á hljóðfærið. Þegar leikið er á strengina fyllist rýmið umhverfis Huldu af hljóðum, munstrum og litum sem breytast í sífellu. Lilja María Ásmundsdóttir hannaði og smíðaði frumgerðina árið 2013
Hljóðfærið Lokkur er hugarsmíð Berglindar Maríu Tómasdóttur, sett saman úr gömlum rokk og langspili í félagi við Jón Marinó Jónsson fiðlusmið og Auði Alfífu Ketilsdóttur. Útgangspunkturinn var að búa til ímyndað sögulegt hljóðfæri og ljá því sögusviðið Nýja-Ísland í Norður-Ameríku einhvern tímann snemma á 20. öldinni.

LHÍ listkennsla: Framtíðarmúsík - nýjar leiðir í tónlistarmenntun
Framtíðarmúsík byggir á nýjum rannsóknum og þróunarverkefnum í tónlistarmenntun og tónlistarmiðlun. Um er að ræða fyrstu bókina sem gefin er út á íslensku um náms- og kennsluhætti í tónlistarnámi. Nær hún til allra skólastiga og dregur fram ný viðmið og nýjar aðferðir á sviði tónlistarkennslu. 
 
LHÍ sviðslistir: TJÁNINGAR - virði og vald væntinga í dansi
Rannsóknarverkefnið EXPRESSIONS: the power and politics of expectations in dance er kóreógrafísk rannsókn sem enn stendur yfir og Steinunn Ketilsdóttir, danshöfundur og gestarannsaknadi sviðslistadeildar LHÍ, leiðir í samstarfi og samtali við alþjóðlegan hóp lista- og fræðimanna. Verkefnið miðar að því að skapa vettvang til endurskoðunar og greiningar á ríkjandi gildum, venjum og hefðum innan danslistarinnar
 
 

Kynnið ykkur alla dagskrána hér.

Takið daginn frá!