Kl. 15.00–17.00 Stofa 25 (3. mars) (IS)
Höfundur og flytjandi: Ástbjörg Rut Jónsdóttir  
Tónlist: Kristín Bergsdóttir  
Leikmynd: Ástbjörg Rut Jónsdóttir  
Áhorfendum er boðið að gægjast inn í minningar listamannsins, sem hún hefur skrifað niður og komið fyrir hálfföldum víðsvegar um heimilislegt og hlýlegt rýmið og heldur áfram að bæta við minningum í safnið á meðan verkið fer fram.
 
Minningarnar eru persónulegar og ópersónulegar, hversdagslegar, óvenjulegar, glaðlegar og sorglegar, fallegar, erfiðar, ljúfar og sárar. Og þær eru allar sannar.
 
Áhorfendum stendur einnig til boða að deila eigin minningum með flytjandanum og geta þannig kosið að vera virkir þátttakendur í verkinu. Þeir geta valið um að deila minningum sínum með því að hvísla þær í eyra flytjandans eða með því að skrifa þær í þar til gerða minningarbók og sjá þar með minningar annarra áhorfenda sem hafa skráð minningar í bókina.  
 
Þeir fá að auki tækifæri til að eiga nána og einlæga stund með flytjandanum, sem inniber þó vissa fjarlægð og verður aldrei fullkomlega prívat. En í verkinu kallast einmitt á slíkar andstæður; nánd og fjarlægð, hið persónulega og hið opinbera, hið ljúfa og hið sára.  
 
Þó að minningar séu persónulegar og eigi sér stað í okkar einkarými, vekja minningar annarra svo oft samsvarandi eða jafnvel allt aðrar minningar hjá okkur og kalla þannig fram tilfinningar sem tengjast minningunum. Verandi svo ólík erum við samt svo lík. Meira að segja í minningunni.  
 
Verkið var áður flutt á sviðslistahátíðinni artFart 2009 og á heimili höfundar 2011.