Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuHönnunardeild Listaháskóla Íslands er þátttakandi í Erasmus+ samstarfsverkefni listaháskóla í Evrópu sem ber yfirskriftina: Climate Truth Crisis: Role of Young Designers and Future Democracies. Verkefnið beinist að því hvernig ungir hönnuðir geta nýtt aðferðir hönnunar til að vinna gegn upplýsingaóreiðu og loftslagsefahyggju með áhrifaríkum hætti.
Markmið verkefnisins er að efla lýðræðisleg ferli með því að þjálfa unga hönnuði í að greina falsfréttir, grænþvott, samsæriskenningar og aðrar tegundir rangra eða villandi upplýsinga um loftslagsmál. Með áherslu á sjónræna upplýsingahönnun og miðlalæsi eru nemendum veitt þekking og tæki til að miðla staðreyndum og frásögnum sem vekja traust og stuðla að sjálfbærum breytingum.
Listaháskólinn er í samstarfi við sex aðra listaháskóla í Evrópu – þar á meðal Konunglegu listaakademíuna í Haag og Camberwell College of Arts í London – auk ELIA, Evrópusamtaka listaháskóla. Verkefnið skilar fjölbreyttum afurðum eins og greinum, hlaðvörpum, myndböndum og kennsluefni sem verður aðgengilegt öllum á heimasíðu þess.
Nýverið var haldinn fundur í tengslum við verkefnið í London sem fulltrúar Listaháskólans sóttu. Meðfylgjandi eru myndir frá fundinum.
Climate Truth Crisis leggur áherslu á mikilvægi sannleika og gegnsæis í miðlun upplýsinga og varpar fram kjarnaspurningunni: Hvernig getur hönnun hjálpað fólki að greina staðreyndir frá falsfréttum og þannig styrkt upplýsta ákvarðanatöku í lýðræðislegu samfélagi?
Frekari upplýsingar og efni má nálgast á heimasíðu verkefnisins: Climate Truth Crisis