SKOÐA SKIPULAGSSKRÁ Á PDF

1. gr.
Listaháskóli Íslands er sjálfseignarstofnum með sérstaka stjórn. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
Stofnfé sjálfseignarstofnunarinnar er eigið fé hennar þann 21. september 1998, kr. 500.000,-.

2. gr.
Listaháskóli Íslands er háskólastofnun sem sinnir æðri menntun á sviði listgreina, sem uppfylla kröfur sem gerðar eru til kennslu og rannsókna á háskólastigi. Listaháskóli Íslands skal jafnframt vinna að eflingu listmennta með þjóðinni og miðla fræðslu um listir og menningu til almennings.

3. gr.
Stjórn skólans er skipuð 5 mönnum til þriggja ára í senn og skal enginn þeirra hafa framfæri sitt af starfi við skólann eða stunda nám við skólann. Menntamálaráðherra tilnefnir tvo menn í stjórnina en þrír skulu kjörnir á aðalfundi félags um Listaháskóla Íslands. Stjórnin kýs sér formann og varaformann úr sínum hópi. Starfsár stjórnarinnar hefst 1. apríl.

4. gr.
Stjórn skólans skal standa vörð um hlutverk skólans og gæta þess að starfsemin þjóni settum markmiðum. Hún ber ábyrgð á rekstri, fjárhag, eignum og ákvarðar skólagjöld. Stjórnin ræður jafnframt rektor skólans.

5. gr.
Rektor er ráðinn til fimm ára í senn. Staðan skal auglýst laus til umsóknar. Endurráða má starfandi rektor til fimm ára í senn án þess að staðan sé auglýst laus til umsóknar.
Rektor annast rekstur og stjórn skólans í umboði stjórnar og ber ábyrgð gagnvart henni. Hann er ábyrgur fyrir að starfstilhögun sé í samræmi við hlutverk, markmið og gæðakröfur, m.a. hvað varðar námsskrá og kennslufyrirkomulag. Rektor er ábyrgur fyrir ráðningu starfsmanna. Helstu yfirmenn skólans skal rektor ráða í samráði við stjórn.

6. gr.
Skipa skal starfi skólans í deildir eftir listgreinum. Stjórn skólans ákvarðar deildarskiptingu. Stjórn skólans setur deildum starfsreglur. Stjórn skólans setur reglur fyrir skólann  í samræmi við lög nr. 136/1997. Yfirstjórn hverrar deildar er falin deildarforseta. Störf deildarforseta skulu auglýst laus til umsóknar til allt að þriggja ára í senn. Rektor ræður deildarforseta að höfðu samráði við stjórn.

7. gr.
Fyrir hverja deild skólans skal setja námsskrá sem kveður á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins. Deildarforsetar bera ábyrgð á gerð námsskrár en rektor skal staðfesta hana. Á grundvelli námsskrár skal árlega gefa út kennsluskrá þar sem m.a. er gerð grein fyrir tilhögun náms, kennsluháttum og námsmati. Rektor ber ábyrgð á gerð kennsluskrár. Í kennsluskrá eða öðrum starfsáætlunum einstakra deilda skal ennfremur kveðið á um missera- eða annaskiptingu, kennslutíma, próftímabil, leyfi og önnur atriði er varða skipulag náms.

8. gr.
Háskólafundur er samstarfsvettvangur deilda og stofnana skólans, og geta stjórn og rektor leitað umsagna hans um hvað eina er varðar starfsemi hans og þróun. Háskólafund skal halda a.m.k. einu sinni á skólaári.  Rektor boðar til háskólafunda. Stjórn skólans setur nánari reglur um starfsemi háskólafunda.

9. gr.
Úrskurðarnefnd fer með æðsta vald í agamálum og réttindamálum nemenda.  Í úrskurðarnefnd sitja auk rektors, sem er formaður hennar, tveir deildarforsetar, tveir fulltrúar kennara og tveir fulltrúar nemenda.  Stjórn skólans setur nánari reglur um tilnefningar í úrskurðarnefnd og um starfsemi hennar að öðru leyti.

10. gr.
Í hvert sinn sem ráða skal í stöðu deildarforseta eða háskólakennara við skólann skal rektor eftir tilnefningu stjórnar skipa þriggja manna dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til þess að gegna stöðu háskólakennara eða deildarforseta.  Engan má ráða sem háskólakennara eða sem deildarforseta nema meirihluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur.

11. gr.
Reikningsár skólans er almanaksárið og skal rektor innan þriggja mánaða frá lokum reikningsárs leggja ársreikning ásamt skýrslu um starfsemina fyrir stjórn skólans. Rektor skal fyrir 1. maí ár hvert leggja rekstraráætlun næsta reikningsárs fyrir stjórn skólans til afgreiðslu.

12. gr.
Verði Listaháskóli Íslands lagður niður sem sjálfseignarstofnun skal skilanefnd, skipuð einum fulltrúa frá hverjum tilnefningaraðila í stjórn skólans, ákveða hvernig að niðurlagningu verður staðið.

13. gr.
Menntamálaráðuneyti ábyrgist fjárstuðning við Listaháskóla Íslands er byggist á samningi fyrir þá þjónustu er skólinn veitir. Menntamálaráðherra ábyrgist jafnframt að gerður verði sérstakur samningur við skólann um afnot af húsnæðinu að Laugarnesvegi 91, Reykjavík.

Skólanum er heimilt að gera samninga um fjárstuðning eða annars konar stuðning við hvern þann sem vill veita skólanum fjárhagslegt lið eða nýta sér þjónustu hans. Skólinn ber ábyrgð á skuldbindingum sínum.

14. gr.
Stjórn skólans skal árlega halda opinn ársfund, þar sem fjárhagur skólans og meginatriði starfsáætlunar hans eru kynnt. Stjórn skólans skal setja reglur um fyrirkomulag ársfundar.

15. gr.
Stjórn skólans getur með samhljóða samþykkt breytt skipulagsskrá þessari.
Breytingar á skipulagsskrá þessari verða aðeins samþykktar á löglega boðuðum fundi stjórnar enda hafi tillaga um slíkt verið kynnt í fundarboði.
Þannig samþykkt á stofnfundi mánudaginn 21. september 1998. Með breytingum samþykktum samhljóða á fundi stjórnar þann 3. október 2002, 25. nóvember 2003 og 14. nóvember 2008.