Á dögunum var tilkynnt að Þóranna Dögg Björnsdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri til eins árs á sviði akademískrar þróunar hjá LHÍ.

Þóranna mun halda utan um þróunarverkefni Listaháskólans og Háskólans í Reykjavík um stofnun sameiginlegrar BA námsleiðar í Stafrænni sköpun, gagnvirkri miðlun og hreyfimyndagerð. Verkefnið hlaut 64 milljón króna styrk fyrr á árinu frá háskóla, -iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu til eflingar samstarfs háskóla. Áætlað er að inntaka fyrstu nemenda nýju námsleiðarinnar verði haustið 2024.

Þóranna Dögg er listamaður sem starfar á þverfaglegum grunni tónlista, myndlistar og stafrænna miðla. Hún lauk burtfaraprófi í klassískum píanóleik frá Tónlistarskóla FÍH og BA gráðu af námsleið Hljóð&Mynd (ArtScience) frá Konunglega Listaháskólanum í Haag, auk M.Art.Ed gráðu í listkennslufræði frá LHÍ. Verk Þórönnu hafa verið flutt víða og hún hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum og listahátíðum á Íslandi og erlendis. Hún hefur starfað sem fastráðinn kennari við listkennslu í grunnskólum auk þess að móta og kenna námskeið við tónlistardeild, myndlistardeild og listkennsludeild LHÍ og kenna við Lýðskólann á Flateyri. Þá hefur hún verið leiðbeinandi nemenda bæði á BA og MA stigi við LHÍ.  Þóranna hefur einnig reynslu af listrænni stjórnun kvikmyndaverkefna, framleiðslu og aðstoðarleikstjórn kvikmynda- og auglýsingaverkefna auk þess að hafa starfrækt um árabil kvikmyndasmiðjuna Kinosmiðju, ásamt listamanninum Rebeccu Erin Moran. Hún býr því yfir yfirgripsmikilli þekkingu á sviði stafrænnar miðlunar og verkefnastjórnunar.  Þóranna er meðlimur í Tónskáldafélagi Íslands, Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur og SÍM, sat í stjórn Nýlistasafnsins um þriggja ára skeið og var annar af tveimur sýningastjórum listatvíæringsins Sequences árið 2020. 

Helstu verkefni Þórönnu eru utanumhald með starfi stýrihóps og rýnihópa þróunarverkefnisins, samskipti við hag- og fagaðila, greining gagna og stefnumótun, auk eftirfylgni við fyrirliggjandi verkferil um stofnun nýrrar námsleiðar og skýrslugerð. Það er Listaháskólanum og Háskólanum í Reykjavík mikið tilhlökkunarefni að þróa og innleiða þessa framsæknu sameiginlegu námsleið sem byggir á sérhæfingu sem tengir saman aðferðir innan kvikmyndalistar, hönnunar, myndlistar, forritunar, tölvugrafíkur, gervigreindar og sálfræði með nýstárlegum hætti.

Bjóðum við Þórönnu hjartanlega velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins.