Föstudaginn 24. febrúar kl. 13 mun Bjarki Bragason halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Í verkum sínum fjallar Bjarki um árekstra í tímaskölum og hugmyndafræði, og rekur frásagnir í gegnum fornleifafræðilega nálgun við staði og hluti sem bera viðfangsefninu vitni. Á undanförnum árum hefur hann rannsakað og velt fyrir sér áþreifanlegum hlutum þar sem breytingar og byltingar eiga sér stað, og skoðar gjarnan samskeyti þar sem kerfi umbreytast. Samfélagsleg átök um sögulegar frásagnir, upplifun einstaklinga á pólitískum valdakerfum og birtingarmyndir hugmyndafræði í byggðum rýmum birtist í gegn um brotakenndar frásagnir og hluti, úr byggðu og náttúrulegu umhverfi, sem Bjarki grefur upp og skoðar. Í fyrirlestrinum mun Bjarki varpa ljósi á hlutverk frásagnar í verkum sínum, hvernig hann nálgast brot af stöðum til þess að rannsaka stærra samhengi atburða ásamt hlutverki og blöndunar á tilviljun og ásetningi í samtali og rannsóknarvinnu.

Bjarki Bragason lærði myndlist við Listaháskóla Íslands, Universität der Künste í Berlín, og lauk framhaldsnámi frá California Institute of the Arts, CalArts, í Los Angeles árið 2010. Hann hefur hlotið styrki og viðurkenningar m.a. úr Styrktarsjóði Guðmundu Andrésdóttur, Listasjóði Dungal og Lovelace Sjóðnum við CalArts. Á undanförnum árum hefur Bjarki stundað rannsóknir við stofnanir og sjálfstætt sem hluta af listamannadvölum, m.a. við Bundeskanzleramt í Vínarborg, HIAP í Helsinki, við Bauhaus skjalasafnið í Berlín og sem hluti af rannsóknarteymum jarðvísindamanna á Grænlandsjökli. Á meðal nýlegra samsýninga Bjarka eru RÍKI: Flóra, Fána, Fabúla, í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur, Infrastructure of Climate í Human Resources, Los Angeles, Infinite Next í Nýlistasafninu, Imagine the Present í St. Paul Street Gallery við Auckland University of Technology. Nýlegar einkasýningar eru The Sea, sýning og rannsóknarverkefni við Schildt Sjóðinn í Tammisaari, Past Understandings við Kunsthistorisches Museum og Desire Ruin við Naturhistorisches Museum í Vínarborg. Bjarki hefur stýrt ýmsum sýningum og verkefnum sem fjalla um myndlist í almenningsrými, og hann rekur lítið gallerí, Ca. 1715, í síð-barrokk skáp á heimili sínu. Bjarki tók við stöðu lektors og fagstjóra bakkalárnáms við myndlistardeild Listaháskóla Íslands haustið 2016.

Hamskipti er yfirskrift fyrirlestrarraðar í myndlistardeild Listaháskóla Íslands nú á vorönn. Mikil endurnýjun hefur orðið meðal fastráðinna kennara deildarinnar að undanförnu, en alls tóku 5 nýjir háskólakennarar til starfa við deildina á haustmánuðum 2016.

Þau eru Ólöf Nordal, (sem hélt opinn fyrirlestur í nóvember 2016), Carl Boutard, Bryndís Snæbjörnsdóttir, Bjarki Bragason og Hildur Bjarnadóttir. Auk þess sem nýr deildarforseti, Sigrún Inga Hrólfsdóttir tók til starfa 1. mars 2016. Á fyrirlestrunum kynna kennararnir viðfangsefni sín og rannsóknir innan myndlistar, sem stuðlar að ríkara samtali um myndlist og mismunandi nálganir, innan deildarinnar og í fagsamfélaginu.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Mynd: Bjarki Bragason, That In Which It, 2015, St. Paul St. Gallery, documentation: Sam Hartnett