Stjórn
Stjórn Listaháskólans fer með æðsta ákvörðunarvald innan háskólans og yfirumsjón málefna er varða skólann í heild. Stjórnin stendur vörð um hlutverk skólans og gætir þess að starfsemin þjóni settum markmiðum. Stjórnin ræður rektor skólans.

Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag, eignum, ákvarðar skólagjöld, og setur reglur um helstu þætti starfseminnar, s.s. um veitingu starfa innan skólans. Stjórnin boðar til opins ársfundar þar sem fjárhagur skólans og meginatriði starfsáætlunar eru kynnt. Stjórnin setur reglur um fyrirkomulag fundarins.

Stjórn Listaháskólans er skipuð fimm mönnum til þriggja ára í senn, og skal enginn þeirra hafa framfæri sitt af starfi við skólann eða stunda nám við skólann. Menntamálaráðherra tilnefnir tvo menn í stjórnina en þrír skulu kjörnir á aðalfundi Félags um Listaháskóla Íslands. Stjórnin kýs sér formann og varaformann úr sínum hópi og setur sér starfsreglur, sem birtar eru á heimasíðu skólans.

Stjórn fer með hliðstætt hlutverk og skilgreint er sem hlutverk háskólaráðs í 15. gr. laga um háskóla nr. 63/2006.

Rektor
Rektor Listaháskólans annast rekstur og stjórn skólans í umboði stjórnar og  vinnur að mörkun heildarstefnu í málefnum hans. Hann ber ábyrgð á því að hrinda stefnu stjórnar í framkvæmd og að starfstilhögun sé í samræmi við hlutverk, markmið og gæðakröfur skólans.

Rektor hefur ásamt með stjórn eftirlit með rekstri skólans, kennslu, listsköpun, rannsóknum, þjónustu og annarri starfsemi í samræmi við lög um háskóla nr. 63/2006.

Rektor er ábyrgur fyrir ráðningu starfsmanna og ræður helstu yfirmenn skólans í samráði við stjórn. Rektor stýrir fundum framkvæmdaráðs og fagráðs háskólans og boðar til háskólafunda. Rektor er talsmaður skólans út á við.

Framkvæmdaráð
Framkvæmdaráð er samráðsvettvangur helstu stjórnenda skólans. Ráðið fjallar um sameiginleg málefni deilda og stoðsviða og skipulag skólastarfsins, þ.m.t. skipulag kennslu og kennslufyrirkomulag. Framkvæmdaráð undirbýr tillögur að stefnu fyrir skólann í helstu málefnum og er bakhjarl rektors í daglegri stjórn.

Í framkvæmdaráði sitja auk rektors framkvæmdastjóri skólans og deildarforsetar. Aðrir forstöðumenn sitja fundi ráðsins eftir því sem tilefni gefa til. Rektor stýrir fundum framkvæmdaráðs.

Fagráð
Fagráð er samráðs- og upplýsingavettvangur stjórnenda, kennara og nemenda skólans. Ráðið fjallar um fagleg markmið skólans, frammistöðu skólans og gæði, og veitir rektor og stjórn stuðning við ákvörðunartöku um akademísk málefni. Meðal málefna sem lögð eru fyrir fagráð eru tillögur um samsetningu náms, viðmið um gæði náms og námskröfur, stefnumál í rannsóknum og listsköpun, og víðari skilgreiningar um gildi skólans og hlutverk.

Í fagráði sitja auk rektors deildarforsetar skólans, fimm fulltrúar fastra kennara skólans, einn frá hverri deild, fimm fulltrúar nemenda, einn frá hverri deild, og tveir fulltrúar stundakennara. Framkvæmdastjóri og forstöðumenn stoðsviða sitja fundi fagráðs eftir því sem málefni gefa tilefni til. Rektor boðar til funda og undirbýr dagskrá. Fagráð hittist a.m.k. einu sinni á önn. Rektor stýrir fundum fagráðs.

Háskólafundur
Háskólafundur er vettvangur fyrir umræðu um fagleg málefni innan háskólans og akademíska stefnumótun, og geta rektor og stjórn leitað umsagna hans um hvað eina er varðar starfsemi skólans og þróun. Fundurinn er opinn öllum kennurum og starfsfólki skólans. Jafnframt er fulltrúum nemenda boðin seta á háskólafundi. Háskólafund skal halda a.m.k. einu sinni ári, og boðar rektor til fundarins.

Háskóladeildir
Starfi Listaháskólans er skipað í deildir eftir listgreinum. Stjórn skólans ákvarðar deildaskiptingu og setur deildum starfsreglur. Yfirstjórn hverrar deildar er falin deildarforseta. Í hverri deild starfar deildarráð.

Deildarforseti
Deildarforseti hefur yfirumsjón með starfsemi og rekstri sinnar deildar og vinnur að stefnumörkun í málefnum hennar. Deildarforseti fer með úrskurðarvald innan deildar í málefnum er varða námsferil og námsframvindu nemenda og hefur jafnframt umsjón með málum sem snerta fræðistörf og listsköpun innnan deildarinnar. Deildarforseti situr í framkvæmdaráði og fagráði skólans.

Deildarráð
Í hverri deild starfar deildarráð sem er samráðsvettvangur innan deildar og er deildarforseta til ráðgjafar um fagleg málefni. Auk deildarforseta sitja í ráðinu fastráðnir háskólakennarar deildarinnar, fagstjórar, og fulltrúi nemenda. Deildarforseti gerir tillögu til rektors um skipan ráðsins að öðru  leyti. Deildarforseti stýrir störfum ráðsins og er jafnframt formaður þess. Fundi skal halda a.m.k. tvisvar á önn.

Háskólaskrifstofa
Hlutverk Háskólaskrifstofunnar er að skapa deildum og starfsfólki skólans skilyrði til að vinna störf sín í samræmi við skipulagsskrá og reglur skólans. Innan hennar eru eftirtalin stoðsvið: náms- og kennsluþjónusta, bókasafns- og upplýsingaþjónusta, tölvu og netþjónusta og fjármál og rekstur. Á Háskólaskrifstofu er einnig starfandi Rannsóknaþjónusta, Alþjóðaskrifstofa, Kynningarstjóri og Verkefnisstjóri þróunar og gæðamála.

Framkvæmdastjóri veitir Háskólaskrifstofu forstöðu, starfar við hlið rektors og fer með fjármál skólans og eignir í samráði við hann. Rekstur stoðsviða eru falinn forstöðumönnum. Framkvæmdastjóri á sæti í framkvæmdaráði skólans.