Um Meistaranám í hönnun

Í meistaranámi í hönnun er fjallað um ólíka veruleika og valkosti og sjónum beint að lifandi sambandi þess hlutbundna og þess óhlutbundna. Í náminu er unnið markvisst með sérkenni Íslands í því skyni að skilja umheiminn og ólíkar tengingar milli hins staðbundna og þess alþjóðlega. Við bjóðum fólki úr ólíkum greinum, hönnun, listum, vísindum og hugvísindum til að slást í för með okkur á ókannaðar slóðir. Meistaranám í hönnun við Listaháskóla Íslands byggir á tilraunakenndum vinnustofum, nánd við viðfangsefni og persónulegri leiðsögn. Yrkisefni ímyndunaraflins og raunveruleg og aðkallandi verkefni í samtímanum eru höfð að leiðarljósi þar sem viðfangsefni námsins snúa að hönnun annarra veruleika, áður óþekktra valkosta og framtíðarmöguleika. 

Garðar Eyjólfsson og Thomas Pausz, fagstjórar frá og með ágúst 2017

Líf-/jarðhermunar kennslu- og námsaðferð: Stærðfræði opnar dyr að þverfaglegri þekkingu
Virk myndbirting veðurs

Hönnuðir framtíðar, áfram þið!

Við lifum á áhugaverðum tímum. Miklar breytingar eru yfirstandandi; allir, svo gott sem, átta sig á þörfinni á að hegða sér öðruvísi en tíðkaðist á síðustu öld. Jarðtímabil hins manngerða er hafið. Það þýðir að maðurinn hannar hnöttinn í heild með gjörðum sínum og ef til vill því sem ekki er gert, sem skiptir jafnvel enn meiru. Nú er ekkert lengur sem er utan hönnunarsviðsins. Og rannsókn á staðreyndum getur verið lamandi og gefið óttanum við hið óþekkta byr undir báða vængi. Framtíðarspár eru sumpart nöturlegar og getur verið erfitt að halda í vonina. Einstaklingurinn getur upplifað sig valdþrota. Aftur á móti er mikill fjöldi fólks sem velur að leggjast á sveif róttækrar bjartsýni með verkum sínum og kýs að virkja orku sína, þekkingu og hæfni í merkingarbærar aðgerðir í þeirri trú að hægt sé að leiðrétta kúrsinn ef umhyggja er höfð að leiðarljósi.

Dóra Ísleifsdóttir, fagstjóri 2012-2017