Hugarflug, árleg rannsóknarráðstefna LHÍ verður haldin 13. september, 2024
Opið fyrir innsendingar til 21. maí, 2024

 

 

Listrannsóknir: Hin skynræna þekking
 

Rannsakendur beina sjónum sínum í síauknum mæli að listamönnum og hvernig þeir nálgast viðfangsefni sín. Það innsæi og sú skapandi hugsun sem listsköpun krefst hefur reynst árangursrík viðbót við staðlaðar aðferðir raunvísinda. Listamenn eru forvitnir einstaklingar sem beita gagnrýnni og þverfaglegri hugsun við lausnir á flóknum vandamálum. Oft hefur sú færni þróast frá unga aldri. Listrannsóknir hafa því gildi langt umfram hina augljósu fagurfræðilegu þætti.

Þrátt fyrir þetta virðist skorta á skilning og samtal við rannsóknarumhverfið. Tilgangurinn með Hugarflugi 2024 er að komast að því hvað liggur þar að baki. Vantar sameiginlegt tungumál? Eru rannsóknaraðferðir listamanna of frábrugðnar hinum hefðbundnu leiðum til að hægt sé að taka þær alvarlega? Mætti miðla útkomu listrannsókna á annan hátt en gert er, eða er gæðum á stundum hreinlega ábótavant?  

Við opnum umræðuna með það að markmiði að svara ofangreindum spurningum. Listaháskóli Íslands kallar hér eftir tillögum af hvers kyns tagi, kynningum á rannsóknum sem eru í gangi eða hafa verið framkvæmdar af starfsfólki okkar, nemendum og/eða samstarfsaðilum. Þannig vonumst við til að framkalla “skjáskot” af rannsóknarmenningu okkar sem hægt er að ræða okkar á milli en ekki síður við fulltrúa hins breiða rannsókarumhverfis dagsins í dag. Hið glögga gests auga er enda verðmætt innlegg inn í þróun rannsókna innan Listaháskóla Íslands til framtíðar.   

Hugarflug 2024 verður haldið í húsnæði LHÍ 13. september nk. Opið er fyrir innsendingar til og með 21. maí, sjá hér

Í ár verður brugðið út af vananum og þeim möguleikum sem áður hefur boðist til framsetningar fækkað. 

Þátttakendum er annars vegar boðið að skila inn tillögum að 20 mínútna fyrirlestrum, eða kynningum, sem raðað verður saman þannig að úr verði  60 mínútna málstofur. Þá taka við 30 mín. panelumræður og spurningar úr sal - alls 90 mínútur í senn. Tekið skal fram að hér verður rými til að sýna listrænan rannsóknarafrakstur líkt og innsetningar, myndbandsverk, gjörninga og flutning á sviðs- og tónverkum. Önnur nýbreytni þetta árið er að aðstaða verður til að setja upp kynningarplaköt fyrir rannsóknarefni þátttakenda og tími gefinn í dagskrá Hugarflugs fyrir höfunda til að kynna efnið og svara spurningum (e. poster session). Með því móti gefst þátttakendum færi á að koma erindi sínu á framfæri með skriflegum og eða sjónrænum hætti á prenti og vera í beinum samskiptum við gesti og gangandi. Þátttakendur framleiða og koma með sín eigin plaköt sem takmarkast við A0 í stærð. 

Ofangreint skipulag er tilraun til að framkalla skýrt „skjáskot“ rannsóknarmenningar á fræðasviðinu listir.

Hugarflugsnefnd 2024

Ása Helga Hjörleifsdóttir
Carl Boutard
Ingimar Ólafsson Waage
Katrín Ólína Pétursdóttir
Pétur Jónasson
Sahar Ghaderi
Elín Þórhallsdóttir

 

 

 

 

 

Application form 

Apply here for Hugarflug 2024

Nánari upplýsingar / contact info: 

Elín Þórhallsdóttir
elinthorhalls [at] lhi.is / hugarflug [at] lhi.is