Skapandi tónlistarmiðlun

Nám í skapandi tónlistarmiðlun leiðir til BA gráðu og telst ákjósanlegur undirbúningur meistaranáms í tónlistar- eða tónmenntakennslu. Námið telst einnig tilvalinn undirbúningur fyrir samevrópskt meistaranám í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi NAIP (Joint Master in New Audiences and Innovative Practise) sem Listaháskólinn býður í samvinnu við fjóra aðra tónlistarháskóla í Evrópu.

 
 

Starfsvettvangur þeirra sem útskrifast af þessari braut getur orðið nánast hvar sem er í samfélagsbyggingunni, allt frá menntakerfi til heilbrigðiskerfis og allt þar á milli, að ógleymdum hinum skapandi geira sjálfum, þar sem samtvinnun ólíkra listgreina og tenging þeirra við aðra geira atvinnulífsins er sífellt mikilvægari. Og er þá ótalin útrás íslenskrar tónlistar og tónlistarmanna, sem er afsprengi aukinnar og bættrar tónlistarmenntunar undanfarinna áratuga sem kallar á aukið framboð og þróun menntunarinnar.

 

Dæmi um viðfangsefni nemendahópsins eru árlegar smiðjur í Ísaksskóla í desember þar sem einn árgangur í senn semur, æfir og flytur nýtt frumsamið jólalag með nemendum LHÍ. Þá hafa nemendur samið söngleiki, gert útvarpsþætti og heimildamyndir og haldið tónlistarsmiðjur með fjölbreytilegum hópum.

 

 

Nafn brautar: Skapandi tónlistarmiðlun
Nafn gráðu: BA
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár
Tónlist fyrir alla
Skapandi tónlistarmiðlun
Skapandi tónlistarmiðlun

Frá fagstjóra

Nám í skapandi tónlistarmiðlun byggist á þjálfun í hljóðfæraleik og/eða söng, bæði með hryntónlist og sígilda og samtímatónlist sem viðfangsefni. Þjálfunin nýtist þeim sem hafa fjölþætta hæfileika og áhuga og reynslu til miðlunar og sköpunar á hvers konar hátt. Einnig eru dæmi um nemendur á brautinni sem hafa menntast í tónsmíðum, hljómsveitar- eða kórstjórn. Þá eru samleikur, samsöngur, tónsköpun í hóp og skapandi tónlistarsmiðjur, sem byggja á samvinnu við skóla og aðrar stofnanir, stór þáttur í náminu, ásamt almennun kjarna fræðigreina sem nemendur á öllum brautum taka. Lögð er áhersla á haldgóða, almenna tónlistarþekkingu með það að markmiði að búa nemandann undir að takast á við ýmis konar tónlistariðkun og miðlun í síbreytilegu samfélagi sem gerir æ fjölbreytilegri kröfur til listamanna um að virkja ólíka hópa til skapandi hugsunar; samfélagi sem kallar á nýja kynslóð öflugra tónlistarmanna sem í síauknum mæli mun starfa jöfnun höndum við tónlistarflutning, sköpun, kennslu og miðlun af ýmsu tagi. 

Gunnar Benediktsston