Hönnuðir og arkitektar hafa það hlutverk að breyta til batnaðar – að auka áþreifanleg og óáþreifanleg gæði. Hagnýtir eiginleikar hönnunar, fagurfræði og hugmyndafræði geta haft víðtæk áhrif á umhverfi og samfélag og koma við sögu oft á dag í lífi sérhverrar manneskju. Hönnun og arkitektúr eru ekki afurðir heldur aðferðarfræði sem byggir jöfnum höndum á rannsókn, rökhugsun, afstöðu, fagurfræði, innsæi og ímyndunarafli.

Í Hönnunar- og arkitektúrdeild er lögð áhersla á að nemendur kunni skil á fræðilegum forsendum hönnunar og geti út frá þekkingu sinni tekið ábyrga afstöðu til umhverfis og samfélags. Hönnun snýst að vissu leyti um að koma auga á möguleikana í því sem hefur enn ekki átt sér stað. Nemendur eru því stöðugt hvattir til að leita nýrra lausna og leiða og leggja sérstaka rækt við frumleika, ímyndunarafl og gagnrýninn hugsunarhátt.

Markmið hönnunar- og arkitektúrdeildar

  • að bjóða upp á metnaðarfullt nám og kennslu
  • að þróa lærdómssamfélag kennara og nemenda
  • að þróa þverfagleg samvinnuferli í hönnun
  • að vinna að sjálfbærni
  • að byggja upp rannsóknamenningu sem styður sameiginlega þekkingarsköpun
  • að takast á við samtímaáskoranir í samfélaginu með aðferðafræði hönnunar
  • að koma menningu hönnunar á framfæri sem hreyfiafli í samfélaginu
  • að stuðla að uppbyggilegum breytingum í samfélaginu

Þar sem hönnun er breytingarafl til aukinna lífsgæða er mikil áhersla lögð á að nemendur takist á við þau málefni sem efst eru á baugi í samfélaginu. Miklu skiptir að beina athyglinni að staðbundnum aðstæðum í hnattrænu samhengi og að takast á við þá öfga sem felast í því að búa í fámennu landi með víðáttumikilli og stórbrotinni náttúru. 

Áhersla er lögð á að skilja hefðbundið og sögulegt samhengi fræðigreinanna sem námsbrautirnar tengjast og að bera fram nýjar spurningar um viðeigandi gildissvið, gerð og framleiðsluferli í nútíma-samhengi. Allar faggreinar hönnunar verða að takast á við takmarkaðan aðgang að auðlindum. Nýsköpun þarf því að ígrunda vel og setja í samhengi við kerfisbundna sjálfbærni, að því er varðar nýtingu auðlinda, framleiðsluferla og lífsferil hráefna. 

Samstarf

Hönnun felur ávallt í sér samráð og samvinnu. Við Hönnunar- og arkitektúrdeild er leitast við að efla samtal og samstarf við fjölbreyttan hóp fagaðila og leikmanna, enda er það mikilvægur hluti námsins. Kennarar deildarinnar hafa stofnað til samstarfs við fjölda samtaka, stofnana og fyrirtækja um þróun verkefna sem unnin eru í námskeiðum og rannsóknar- og/eða þróunarverkefnum. Samstarfs-líkön eru margvísleg og í sífelldri þróun og mótun. Samstarf við mismunandi aðila veitir samræðu og samskiptum þann sess sem nauðsynlegur er í öllum samstarfstilraunum í sköpun og þverfaglegri hugsun. 

Inntaka í BA nám

Sérskipuð inntökunefnd metur umsóknir á grundvelli mats á innsendu efni og viðtölum.

Mappan

Umsækjendur í hönnunar- og arkitektúrdeild skulu safna sýnishornum af verkum sínum saman í möppu (portfólíó), í PAPPÍRSFORMI, sem þeir leggja fram með formlegri umsókn.
Verkin eiga að endurspegla persónuleika nemandans, varpa ljósi á helstu hugðarefni hans og úr þeim á að vera hægt að lesa hvaða hæfileika hann hefur til frumlegrar sköpunar og framsetningar á hugmyndum sínum. Ekki er nauðsynlegt að öll verkin séu fullgerð eða þau útfærð til hins ítrasta. Þvert á móti er mikilvægt að þar sé einnig að finna hvers konar skissur og teikningar, ljósmyndir, texta og jafnvel hljóðverk. Í raun rúmast allt innan möppunnar sem að mati nemandans sjálfs getur með einum eða öðrum hætti lýst því sem hann vill ná fram með vinnu sinni á viðkomandi sviði og getur vitnað til um hvort hann hefur hæfileika til að koma því á framfæri við aðra.

Það er ekki leyfilegt að skila aðeins rafrænni möppu.  Ekki er tekið við geisladiskum, minniskubbum né er hægt að vísa í heimasíður, nema sem ítarefni. Sýnishorn úr hreyfimyndum þarf að birta á prenti, til að sýna slík verk á að gera „storyboard“ með „still“-myndum úr verkinu og setja verkið með á rafrænu sem ítarefni eða vísa á það.
Umsækjandi sem sækir um skólavist við fleiri en eina námsbraut innan deildarinnar skal leggja fram eintak af möppu með sérhverri umsókn. Möppur skulu vera nafnlausar (þær fá umsóknarnúmer í móttöku).

Að loknu námi

BA nám á öllum námsbrautum hönnunar er leið út á vinnumarkað hvort sem er hjá fyrirtækjum, stofnunum, hönnunarstofum eða við víðtæk samfélagsleg verkefni þar sem aðferðarfræði hönnunar verður sífellt mikilvægari og virtari. Jafnframt eru víðtækir möguleikar á að auka þekkingu og sérhæfingu með framhaldsnámi á háskólastigi. MA nám leggur ríka áherslu á að virkja og styðja við áhugasvið hvers einstaklings.
BA nám í arkitektúr við LHÍ er grunnnám án allra starfsréttinda. Til að öðlast réttindi til að kalla sig arkitekt á Íslandi þarf að hafa lokið viðurkenndu fullnaðarnámi í arkitektúr.  Fullnaðarnám lýkur með meistaragráðu.  Að því loknu þarf arkitekt að afla sér starfsreynslu til að ljúka löggildingarprófi til að leggja teikningar fyrir nefndir og ráð.

Nám í hönnun og arkitektúr

Við Hönnunar- og arkitektúrdeild eru í boði fjórar námsbrautir á BA stigi og ein námsbraut á MA stigi. Námsbrautir á BA stigi eru í arkitektúr, grafískri hönnun, fatahönnun og vöruhönnun. BA nám í hönnun og arkitektúr er þriggja ára nám til 180 eininga og skiptist í vinnustofur, fræðinámskeið og tækninámskeið. Nemendur ljúka að jafnaði 30 einingum á önn. Að loknu námi og tilskildum prófum og verkefnum hlýtur nemandi BA gráðu.

Kennsla á BA stigi

Markmið með námi í hönnunar- og arkitektúrdeild er að þróa færni nemenda til að hugsa á gagnrýninn og skapandi hátt, setja fram og leysa verkefni, að greina, meta og hugsa upp frumlegar lausnir og tillögur í hönnun og fræðilegum verkefnum. 

Kennsla fer fram í námskeiðum á vinnustofum, verkstæðum og í hefðbundnum kennslustofum þar sem stuðst er bæði við einkaleiðsögn og hópleiðsögn, í fyrirlestrum, málstofum, umræðum og gagnrýni í smærri hópum auk tæknikennslu á verkstæðum deildarinnar. 

Dagleg kennsla fer fram frá kl. 08:30–16:40.

Frá kl. 08:30–12:10 sækja nemendur fræðinámskeið og tækninámskeið. Námskeið eru ýmist fimm, tíu eða fimmtán vikna löng. Hönnunarfræði er mikilvægur þáttur námsins. Lögð er áhersla á gagnrýna og skapandi hugsun nemenda og að nemendur kunni skil á hugmyndafræðilegum forsendum hönnunar og sögulegu samhengi faggreina. Kennsluaðferðir eru í formi fyrirlestra, umræðna og verkefnavinnu. Nemendur vinna stutt rannsóknar- og greiningaverkefni, kynna niðurstöður sínar í kynningum og stuttum fyrirlestrum og vinna með texta, m.a. í ritgerðarskrifum. Í tækninámskeiðum er boðið upp á sérhæfða þjálfun nemenda í samræmi við valda faggrein.

Frá kl. 13:00–16:40 sækja nemendur vinnustofur. Kennslu er skipt niður í mislöng námskeið og geta verið allt frá einni viku og upp í fimmtán vikna námskeið. Vinnustofur eru starfsvettvangur nemenda og kennara. Þar er unnið að margvíslegum verkefnum sem tengjast hönnun undir leiðsögn umsjónarkennara námskeiða. Hver nemandi fær úthlutað eigin vinnuaðstöðu í vinnu-stofu og er ætlast til að nemendur stundi sína vinnu þar en kennarar koma reglulega á vinnustofu og leiðbeina með verkefni. Þarfir námskeiðsins ráða síðan hvernig unnið er í vinnustofunni en gert er grein fyrir kennslufyrirkomulagi og námsmati í upphafi hvers námskeiðs. Námskeiðum lýkur með yfirferðum þar sem nemendur kynna verkefni sín og taka þátt í umræðum með kennurum og utanaðkomandi gestum og öðrum nemendum.