Tónsmíðar
Á tónsmíðabraut eru tvær námsleiðir á bakkalárstigi
-
Hljóðfæratónsmíðar: Þriggja ára 180 eininga BA-nám.
-
Nýmiðlar: Þriggja ára 180 eininga BA-nám.
Bakkalárnám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands er þriggja ára nám sem leiðir til BA gráðu. Frá og með haustinu 2018 er hægt að velja milli tveggja meginleiða í uppbyggingu námsins: hljóðfæratónsmíða og nýmiðla.
Í hljóðfæratónsmíðum byggir námið á hefðbundnu handverki og þróun þess en nýmiðlaleiðin sprettur upp úr listheimi nútímans þar sem fengist er við raf- og tilraunatónlist og snertifleti flutnings, miðlunar og sköpunar.
Tónsmíðanemendur vinna náið með hljóðfæra- og söngnemendum deildarinnar. Það samstarf kristallast í uppskeruhátíð tónlistardeildar, Ómkvörninni, sem haldin er í lok hverrar annar. Nemendur fá að auki tækifæri til að semja fyrir kór skólans eða Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Á fimmtu önn gefst síðan tækifæri til að semja fyrir og vinna með flytjendum sem sérhæfðir eru í flutningi nýrrar tónlistar. Nemendur tónsmíðabrautar hafa kost á náinni samvinnu við aðrar deildir, m.a. við sviðslistadeild í ýmsum verkefnum sviðshöfunda, leikara og dansara. Samstarf er við Kvikmyndaskóla Íslands um gerð tónlistar við útskriftarverkefni kvikmyndagerðarnema.
Hljóðfæratónsmíðar
Í hljóðfæratónsmíðum liggur hefðbundin nótnaritun til grundvallar. Nemendur læra hljómfræði, tónbókmenntir og hljóðfærafræði en er jafnframt gefin innsýn í nýja hljóðfæratækni og heim raftónlistar. Í hóptímum og einkatímum tónsmíða er sjónum ávallt beint að tónsmíðaaðferðum 20. og 21. aldar. Frá fjórðu önn endurspegla fræðaáfangar fjölbreytt tónmál, tónsmíðatækni og hugmynda- og fagurfræði 20. og 21. aldar. Ennfremur má benda á möguleika í vali á námskeiðum í tónsmíðum nýmiðla og annarra deilda skólans.
Nýmiðlar
Í tónsmíðum nýmiðla læra nemendur undirstöður hljóðhönnunar, hljóðfræði og tónlistarforritunar. Jafnframt eru ólíkir möguleikar í ritun, gagnvirkni og miðlun tónlistar rannsakaðir. Í hóptímum og einkatímum tónsmíða er lögð áhersla á tónsmíðaaðferðir raf- og tölvutónlistar, tilraunatónlist og aðferðir þvert á listgreinar ásamt hugmynda- og fagurfræði 20. og 21. aldar. Frá fjórðu önn geta nemendur nýmiðla kosið sér áhersluleið með vali úr fjölbreyttri flóru námskeiða allt frá tónfræðagreinum til námskeiða við aðrar deildir skólans.