Tónsmíðar

Á tónsmíðabraut eru tvær námsleiðir

  • Hljóðfæratónsmíðar: Þriggja ára 180 eininga BA-nám.  
  • Nýmiðlar: Þriggja ára 180 eininga BA-nám.

Bakkalárnám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands er þriggja ára nám sem leiðir til BA gráðu. Frá og með haustinu 2018 er hægt að velja milli tveggja meginleiða í uppbyggingu námsins: hljóðfæratónsmíða og nýmiðla.

Í hljóðfæratónsmíðum byggir námið á hefðbundnu handverki og þróun þess en nýmiðlaleiðin sprettur upp úr listheimi nútímans þar sem fengist er við raf- og tilraunatónlist og snertifleti flutnings, miðlunar og sköpunar.

Tónsmíðanemendur vinna náið með hljóðfæra- og söngnemendum deildarinnar. Það samstarf kristallast í uppskeruhátíð tónlistardeildar, Ómkvörninni, sem haldin er í lok hverrar annar. Nemendur fá að auki tækifæri til að semja fyrir kór skólans eða Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Á fimmtu önn gefst síðan tækifæri til að semja fyrir og vinna með flytjendum sem sérhæfðir eru í flutningi nýrrar tónlistar. Nemendur tónsmíðabrautar hafa kost á náinni samvinnu við aðrar deildir, m.a. við sviðslistadeild í ýmsum verkefnum sviðshöfunda, leikara og dansara. Samstarf er við Kvikmyndaskóla Íslands um gerð tónlistar við útskriftarverkefni kvikmyndagerðarnema.

Hljóðfæratónsmíðar

Í hljóðfæratónsmíðum liggur hefðbundin nótnaritun til grundvallar. Nemendur læra hljómfræði, tónbókmenntir og hljóðfærafræði en er jafnframt gefin innsýn í nýja hljóðfæratækni og heim raftónlistar. Í hóptímum og einkatímum tónsmíða er sjónum ávallt beint að tónsmíðaaðferðum 20. og 21. aldar. Frá fjórðu önn endurspegla fræðaáfangar fjölbreytt tónmál, tónsmíðatækni og hugmynda- og fagurfræði 20. og 21. aldar. Ennfremur má benda á möguleika í vali á námskeiðum í tónsmíðum nýmiðla og annarra deilda skólans.

Nýmiðlar

Í tónsmíðum nýmiðla læra nemendur undirstöður hljóðhönnunar, hljóðfræði og tónlistarforritunar. Jafnframt eru ólíkir möguleikar í ritun, gagnvirkni og miðlun tónlistar rannsakaðir. Í hóptímum og einkatímum tónsmíða er lögð áhersla á tónsmíðaaðferðir raf- og tölvutónlistar, tilraunatónlist og aðferðir þvert á listgreinar ásamt hugmynda- og fagurfræði 20. og 21. aldar. Frá fjórðu önn geta nemendur nýmiðla kosið sér áhersluleið með vali úr fjölbreyttri flóru námskeiða allt frá tónfræðagreinum til námskeiða við aðrar deildir skólans.

Nafn brautar: Tónsmíðar
Nafn gráðu: BA
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár
„Það er misskilningur að tónsmíðanám snúist einungis um nótur, hljómfræði eða kontrapunkt. Í LHÍ eru kennarar sem koma úr mörgum mismunandi áttum og hjálpa þér að móta hugmyndir þínar hvort sem þær eru einleiksverk fyrir píanó, kammerverk, margrása rafverk, hljóðskúlptúr eða gjörningur. Það er boðið upp á mikið frelsi og frábært tækifæri til þess að koma verkum sínum til skila í flutningi. Þú lærir að skoða tónlist frá mörgum sjónarhornum og beita gagnrýnni hugsun, jafnt í hugmyndafræðilegri sem verklegri vinnu. Tónsmíðanám er kjörið tækifæri fyrir alla tónlistarmenn til þess að tjá og þroska hugmyndir sínar um tónlist og gera úr þeim mögnuð tónverk.“
 

Pétur Eggertsson, nemandi í tónsmíðum.

Frá fagstjóra

Tónsmíðanám í Listaháskóla Íslands miðar að því að veita góða alhliða grunnmenntun og undirbúa nemendur fyrir skapandi störf á sviði lista og menningar. Einnig er kappkostað að gefa gott veganesti til frekara og sérhæfðara náms með markvissri þjálfun í aðferðum tónsköpunar, notkun hljóðfæra og raftækni og akademískum vinnubrögðum. 

Nemendur hafa möguleika á að því að vinna að fjölbreyttum verkefnum tengdum leiklist og dansi í samvinnu við sviðslistadeild LHÍ en einnig er möguleiki á samstarfi við aðrar deildir skólans. 

Hróðmar I. Sigurbjörnsson