Um Meistaranám í myndlist

Alþjóðlegt meistaranám í myndlist við Listaháskóla Íslands skapar nemendum vettvang til að dýpka og auka þekkingu sína á sviði myndlistar, styrkja persónulega sýn og tengja listsköpun sína við fræðilegar forsendur fagsins.

Námið gerir miklar kröfur til sjálfstæðra vinnubragða. Lögð er áhersla á að í listsköpun og rannsóknum nemenda eigi sér stað markviss uppbygging þekkingar, að þeir nái góðu valdi á faglegum viðmiðum myndlistar og geti starfað sem sjálfstæðir og virkir listamenn að námi loknu.

Eitt sérkenni meistarnáms við Listaháskóla Íslands er návígi nemenda við önnur fagsvið lista við skólann. Boðið er upp á samstarf á sviðum myndlistar, tónlistar, hönnunar og sviðslista í fræðanámskeiðum deildanna og í sameiginlegri vinnusmiðju MA námsbrauta í myndlist og í hönnun á haustmisseri fyrra námsárs.

Nám á meistarastigi felur í sér þátttöku á starfsvettvangi lista. Myndlistardeild er í samstarfi við allar helstu listastofnanir hér á landi, auk innlendra og erlendra samstarfsskóla og lista- og fræðimanna á alþjóðlegum myndlistarvettvangi.
Námið byggir á víðtækri samþættingu þeirra listrænu þátta sem búa að baki frumsköpun í myndlist.

Áhersla er lögð á að skapa gefandi og kraftmikið umhverfi sem hverfist um helstu viðfangsefni samtímamyndlistar hverju sinni.  Þannig er í senn unnið með staðbundin sérkenni og alþjóðlegar skírskotanir.  Meginmarkmið námsins eru að nemendur geti starfað sem sjálfstæðir, virkir og ábyrgir listamenn.