Myndlistardeild Listaháskóla Íslands tekur virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Deildin hefur gert tvíhliða samning við þrjátíu og sjö háskóla í Evrópu á vegum Erasmus/Sókrates menntaáætlunarinnar auk þess að eiga samskipti við listaháskóla vestan hafs í gegnum styrktarkerfi Fulbright. Innan Nordplus er myndlistardeild þátttakandi í KUNO, samstarfsneti sautján myndlistarháskóla á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Samstarfið byggir á kennara- og nemendaskiptum auk annarra samvinnuverkefna. Þá hefur myndlistardeild stofnað til fjölda samstarfsverkefna við aðrar háskóla og listastofnanir hér á landi. Myndlistardeild hefur átt samstarfi við námsbraut í Listfræði við HÍ um fræðihluta náms við deildina, bæði á BA og MA stigi og einnig við námsbraut í Ritlist á MA stigi.

Dæmi um langtíma samstarfsverkefni myndlistardeildar:

  • Vinnustofan Seyðisfjörður: Samstarfsverkefni við menningarmiðstöðina Skaftfell á Seyðisfirði, Dieter Roth akademíuna og Tækniminjasafn Austurlands. Hefur verið haldið árlega síðastliðin 10 ár. Lögð er áhersla á að nemendur geti nýtt sér þær sérstæðu aðstæður sem bærinn og umhverfi hans býður upp á. Vinnustofunni lýkur með opinberri sýningu á verkum nemenda í menningarmiðstöðinni Skaftfelli.
  • Íslensk samtímalistfræði: Myndlistardeild Listháskólans mótaði og fór af stað með rannsóknarverkefnið Íslensk samtímalistfræði vorið 2011 í samstarfi við Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Háskóla Íslands, Nýlistasafnið og Listfræðafélag Íslands. Rannsökuð eru skrif fræðimanna og gagnrýnenda um íslenska myndlist, auk skrifa listamanna sjálfra. Langtímamarkmið rannsóknarverkefnisins er að til verði greinargott heildaryfirlit yfir skrif um íslenska samtímamyndlist.
  • Orðasafn um myndlist: Myndlistardeild er þátttakandi í rannsóknarverkefninu Orðasafn um myndlist sem unnið er í samvinnu við Íslenska málstöð, Listasafn Íslands, Lisasafn Kópavogs – Gerðarsafn og Listasafn Háskóla Íslands. Unnið hefur verið að verkefninu frá árinu 2003.
  • Umræðuþræðir: Umræðuþræðir er samstarfverkefni Listasafns Reykjavíkur, Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og myndlistardeildar Listaháskóla Íslands sem hófst árið 2011. Lagt er upp með að skapa vettvang hérlendis fyrir alþjóðleg tengsl og umræður með erlendum gestum út frá fyrirlestrum, kynningu á listamönnum og kennslu við myndlistardeild. Gestirnir eru virtir sýningarstjórar, fræði- og listamenn sem eiga merkan feril að baki á alþjóðlegum vettvangi.
  • Raflost: Myndlistardeild hefur á undanförnum árum gengist fyrir vinnustofum og þátttöku nemenda í sýningum í samstarfi við raflistahátíðina Raflost og Tónlistardeild LHÍ.